mánudagur, 25. júlí 2011

Í dag ætla ég að koma í verk ýmsu sem ég vil ekki taka frí úr vinnunni til að gera. Fara til læknis og tannlæknis, athuga með rafvirkja út af þessu ljósi í stofunni, setja teygð og toguð föt í ruslið, skrúbba flísarnar í sturtunni, taka til... allskonar svoleiðis. Mikilvægast er þó að fara út að hlaupa. Og það gerði ég snemma í morgun. Ég hafði gleymt að slökkva á vekjarklukkunni sem er forrituð til að hringja mánudag til föstudags klukkan 4:55. Ég þóttist reyndar ekki hafa tekið eftir þeirri hringingu en fór út við "þú þarft að hlaupa á eftir strætó" hringingu klukkan 6:15. Og hljóp mitt besta hlaup hingað til. Eftir upphitun og teygjur lagði ég af stað og komst inn í einhvern takt, einhvern andlegan stað þar sem ég gat skipt á milli þess að einbeita mér aðeins að því hvernig líkama mínum leið og á milli nokkuð árangursíkra hugleiðinga um hvert ég er að stefna og hvað ég vil fá frá sjálfri mér, um hvað ég þarf að gera til að líða vel í eigin skinni og hvað ég þarf að gera til að öðlast innri frið. Ég fann taktinn í dag. Vanalega eru hlaupin mér dálítið erfið. Ég elska eftirtilfinninguna en hef hingað til þótt erfitt á meðan ég er að hlaupa. Í dag er eins og lungun mín hafi stækkað og geti meira, mjaðmir og læri eru sterkari og allt er eins og það sé að smella saman. Og hvað þetta var yndislegt, að fá góðu tilfinninguna ekki bara eftir á heldur á meðan líka!

Og svo hefst annar sólríkur dagur í Wales.

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Frábært að heyra. Ég fór einmitt 10 km í morgun og hugsaði um leið og ég hljóp hvað hafi eiginlega komið fyrir mig. Fyrir rétt um ári síðan var það mesta pína í heimi að fara út að skokka og ég þoldi ekki að hafa ekki aðgang að gym-i.

Í dag get ég ekki ímyndað mér lífið án þess að fara ÚT að skokka. Ég mun aldrei verða neinn frábær hlaupari og alltaf mun ég vera í þyngri kantinum en útihlaupin eru orðin fastur hluti af mér og er kominn til að vera, ég er alveg handviss um það.

Njóttu þess að vera í fríi og ég vona að þið komist yfir listann góða! :)