þriðjudagur, 12. júlí 2011

Í þessari viku er ég að sjá um kvöldvaktina hjá okkur í vinnunni. Við erum með hóp af fólki sem er að reikna út aukavexti á sparnaðarreikningum tengdum skattaafslætti (engar áhyggjur ég byrjaði að hrjóta af leiðindum yfir þessari setningu líka) og í gærkveldi byrjuðu 15 nýjir starfsmenn. Ég var beðin um að taka þau að mér, fara yfir "health & safety", fara yfir helstu reglur og siði og fara svo í gegnum starfsþjálfun með þeim. Þetta er ágætis tilbreyting frá mínu daglega starfi en vinnutíminn heldur ósiðlegur; frá 4 til 10 á kvöldin. Svona eins og í gömlu vinnunni. Þetta þýðir að ég hef allan morguninn út af fyrir mig hér heima. Sem er auðvitað alveg hreint ljómandi gott, ég þreif kofann í gær frá rjáfri og niður í rafta og kom lagi á þvottahúsið. Og var syngjandi kát. Í dag er ég svo búin að vera andlaus og orkulaus. Hef grun um að ég sé í einhverskonar sykurlosti síðan á sunnudaginn. Ég fór gersamlega yfir strikið í sykurneyslu þá en fór svo yfir strikið í hina áttina í gær og borðaði allt of lítið. Er skjálfhent og með svima í dag. Er stressuð inni í mér, yfir hverju veit ég ekki, og líður rosalega illa. Er með tárin svona rétt innan við hvarma. Mikið sem það er furðulegt að þetta snúist allt um efnafræði þegar öllu er á botni hvolft. Að snickers á sunnudaginn og svelti í gær hafi þessi áhrif á mig í dag. Ég er búin að fara út að hlaupa en endorfínin þar dugðu ekki til að láta mér liða betur. Best ég grenji núna bara í smástund og þá verður örugglega í fínu lagi með mig.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Æ,æ...mamma skal þerra tárin, hugga og kyssa á bagtið.

murta sagði...

Takk mamma mín, ég er alveg í fínu lagi núna :)