sunnudagur, 17. júlí 2011

Súper lífsglöð egg.
Ég hef reynt að hafa það fyrir reglu að kaupa hamingjusöm egg. Að undanförnu hef ég þó mestmegnis neyðst til að kaupa í meðallagi ánægð egg þar sem allar klær eru núna úti til að halda sig innan fjárhagsáætlunar. Og hamingja hænsna er ekki ókeypis. Ég er greinilega ekki meiri prinsipp manneskja en svo. Ég fékk svo gefin í gær egg sem ég veit fyrir víst að eru 100% yfir sig ánægð með lífið og tilveruna. Mamma vinar hans Lúkasar heldur hænur og reyndar endur líka ásamt því að rækta allskonar grænmeti í bakgarðinum hjá sér. Vinur hans Lúkasar kom í heimsókn í gær og þegar ég skilaði honum aftur heim var ég leyst út með nokkrum heimaalnum hænueggjum. Ég tími ekki að nota þau í eggjamúffur eða bakstur, ég ætla að nota þau alveg hrein í ommilettu, til að finna bragð- og gæðamun, ef einhver er. Það er eitthvað alveg spes við svona heimaræktað. Ég sé þetta alveg í hillingum, þetta með hænurnar og grænmetið. Ég er með dágóða landspildu hér á bakvið og ef ég væri alvöru manneskja þá væri hér kominn lítill húsdýragarður og grænmetisrækt. En hillingar og ímynd er ekki það sama og alvara. Ég hef síðan ég breytti um lífstíl séð það fyrir mér að ég myndi setja á mig garðhanska og drífa mig þarna út og sá og rækta en það hefur enn ekki gerst. Það fer svo fallega saman, nýja Svava og Heimaræktað grænmeti. Ég er reyndar við að gefa upp vonina um að ég geti breytt mér svo mikið úr þessu. Er grænmetisrækt ekki eitthvað sem er í blóðinu á fólki? Og hún er svo sannarlega ekki í mínu blóði, þar er bara salt og sandur. En svo hugsa ég um mig sem hlaupara og held í vonina örlítið. Ef ég gat byrjað að hlaupa er í alvörunni svo fjarstæðukennt að ég geti sáð nokkrum kartöflum?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ, ég bakaði kjúklingabaunasmákökurnar og jiminn eini hvað þær komu á óvart!!! Hrikalega góðar! Ég notaði reyndar helmingi minna af kókosolíu (kláraði það sem ég átti) og setti meira hnetusmjör. Held það geri gæfumuninn :) Gerði hálfa uppskrift, mitt deig varð eins og nokkuð þétt smákökudeig og þær runnu ekkert út. Úr urðu 15 smákökur. Reiknaði orkuna og hver kaka hjá mér er 43 kcal. Þær eru heldur ekki of sætar og mjög seðjandi, alla vega lét ég bara 2 duga :)

Kveðja,
Soffía frænka (Röggu), dyggur lesandi :)

murta sagði...

Frábært að heyra. Þetta er akkúrat það sem ég vil að fólk geri, bara fikti með uppskriftina hingað og þangað. Það er það sem ég geri. En já, þær eru alveg furðulega góðar ;) Ég er búin að prófa að setja instant kaffi í þær og búa til kaffismákökur, það var líka voða gott.

Frábært!