þriðjudagur, 19. júlí 2011

Um daginn skildi ein af stelpunum á hlaupanámskeiðinu eftir þau skilaboð á umræðuborðinu að hún væri þreytt á þessu öllu saman, þetta væri of erfitt, að hún hefði ekki búist við að þetta væri svona erfitt, henni væri illt í sköflungunum, hún nennti ekki á fætur fyrr á morgnana til að koma hlaupunum að og svo framvegis og framvegis. Hún fékk þó nokkur svör frá hinum konunum þar sem þær vorkenndu henni fyrir að vera svona þreytt og stungu upp á ýmsum ráðum við því (fara fyrr að sofa, drekka heita mjólk, slökkva á sjónvarpinu hálftíma áður en hún færi að sofa) eða þá að hún fékk meðaumkun yfir sköflungunum (hún ætti að fá kærastann til að nudda sig, hún þarf að setja klaka á bágtið, hún ætti að fá sér smávegis súkkulaði af því að hún ætti það skilið). Hún skildi svo eftir skilaboð með mynd af fjórum cupcakes sem hún ætlaði að borða sem verðlaun fyrir að vera svona dugleg að fara út að hlaupa þó svo að henni væri illt í fótunum. Mér brá smávegis yfir viðbrögðunum hjá sjálfri mér. Ef ég segi satt og rétt frá þá varð ég bálreið, út í hana og aumingjaskapinn, út í hinar konurnar fyrir að leggja aumingjaskapnum lið, út í sjálfa mig fyrir að vera svona skilningslaus á þjáningar feitu stelpunnar. Mig dauðlangaði til að skilja eftir skilaboð sem bentu henni á að hún hefði skrifað langa pistla í upphafi námskeiðins um hversu leið hún væri orðin á að vera þetta feit, að hún ætti það inni hjá sjálfri sér að leggja vinnuna á sig til að létta sig. Hvort hún væri búin að gleyma nú þegar hlaupin eru orðin aðeins erfiðari að það fæst ekkert ef maður leggur ekki eitthvað á sig? Mig langaði líka til að benda henni á að í staðinn fyrir fjórar kökur hefði hún kannski frekar átt að kaupa sér kælikrem á sköflungana eða betri hlaupaskó. Aðallega langaði mig þó til að segja henni að halda kjafti og drulla sér út að hlaupa. Að þetta væri ekki flóknara en það. Bara halda kjafti og hlaupa. Og svo skammaðist ég mín fyrir að vera svona harðsvíruð. Auðvitað veit ég hvað þetta er mikil barátta og hvað þetta er erfitt. Ég er að berjast akkúrat núna. Er á jafnsléttu og er að berjast við sömu þrjú kílóin og er mikið búin að gæla við uppgjafarhugsanir að undanförnu. Ætti ég ekki að sýna meiri samúð, meiri samkennd? Kannski að ég varð svona reið yfir þessu afsakanahlussugrenji í henni af því að ég heyri í sjálfri mér segja sömu hlutina? Og hvað segi ég við sjálfa mig? Haltu kjafti og haltu áfram að hlaupa.

3 ummæli:

Guðrún sagði...

Æ, elskudúllusnúlludabbilóin mín. Barátta, endalaus barátta. Vildi að ég gæti tekið smá að mér fyrir þig.

Heiða sagði...

Eins og talað út úr mínum munni. Ekkert væl, bara berjast! Mér finnst þú ekki skilningslaus. Dömurnar á spjallborðinu eru bullandi meðvirkar. No-bullshit er best!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta sýna mjög vel hvað þú ert komin langt í þessari baráttu! Hefðir þú sýnt þessi viðbrögð fyrir hálfu eða einu ári síðan?

Kv Hólmfríður