miðvikudagur, 28. september 2011

Vúhú!
Í stað þess að virða fyrir sér það sem ég hef gert hingað til og flokka það í "góð tímabil" og "slæm tímabil" er mjög mikilvægt að skilja að ég sé þetta alls ekki þannig. Ég sé þetta allt sem þróun. Þetta er allt ferli þar sem allt það sem hefur gerst á einhvern rétt á sér.

Ég ætla núna að halda því fram blákalt að megrunarkúrar eru nánast eina ástæðan fyrir offituvandamáli nútímans. Síðan megrunarkúrar komu til sögunar höfum við gert lítið eitt nema að fitna. Við erum gerð þannig að líkaminn ver sig gegn hungursneyð og um leið og "viljastyrkurinn" dvín eftir nokkra daga á hvítkáli og sjeik hrópar líkaminn á næringu og flestir byrja að troða í sig sem enginn væri morgundagurinn. Og sitja svo eftir með sárt ennið og kenna sjálfum sér um. Að viljastyrkinn hafi ekki verið nægilegur. En það er ekki manneskjan sem bregst, það er kúrinn. Eftir allt þá töldu nasistar í Auswich-Birkenau að 900 kalóríur á dag væru undir hungurmörkum. Samt eru enn til megrunarkúrar sem mæla með 800-1200 kalóríum á dag! Nei, það er ekkert að viljastyrknum hjá fólki þegar það gefst upp á kúrnum.

Það er ólíklegt að öll séum við tilfinningahræætur. Um leið og ég er sannfærð um að mikil hluti offitusjúklinga (og þá í stórum hluta konur) séu að borða af einmanaleika, depurð, leiðindum eða stressi, þá getur bara ekki verið að allar nútímafitubollur búi yfir einhverju lamandi andlegu áfalli sem veldur ofáti. Sum okkar eru bara löt og gráðug og þá þarf að díla við vandann út frá því.

Þegar ég byrjaði á þessu öllu saman þá byrjaði ég í megrunarkúr, ég kallaði það lífstíl og kúrinn var mín eigin uppfinning en engu að síður þá var ég að fylgja settum reglum. Síðan þá hefur þetta allt saman þróast og breyst hjá mér. Og akkúrat núna er ég komin á einhvern stað þar sem ég er eins hamingjusöm og sátt og ég held að ég bara geti orðið. Það er eins og að ég sé búin að ná markmiðinu. Mér líður satt best að segja þannig. Nú snúast markmiðin mín um eitthvað miklu mikilvægara en tölu á vigt.

Ég er sannfærð um að það sé ekki hægt að komast á þennan punkt sem ég er á núna án þess að ganga í gegnum þetta ferli.. Ég veit hvað það er sem gerir það að verkum að ég hef getað haldið spikinu af mér í allan þennan tíma. Og ég get líka sagt ykkur hvað það er. En ég er líka alveg viss um að með þá vitneskju að vopni þurfið þið samt líka að ganga í gegnum ykkar ferli og fatta það sem ég get sagt ykkur núna sjálf. Þessi djúpstæða breyting sem hefur átt sér stað á viðhorfi mínu gagnvart sjálfri mér, gagnvart mat og hreyfingu er lykillinn að þessu öllu saman. En sú breyting hefur átt sér stað í kjölfarið á gífurlegri vinnu. Ég get prédikað þangað til að ég verð fjólublá í framan að megrunarkúrar séu verkfæri djöfulsins en ég held samt að flest ykkar sem lesi séuð á einhverjum kúr. Sem er fine and dandy. Svo lengi sem þið lofið mér að þegar að kúrnum lýkur, þegar líkaminn gefst upp, að þið haldið áfram að vinna vinnuna og komist á næsta stig. Þar sem þar hefur orðið varanleg breyting á viðhorfum til þess hvers sem maður borðar og hvernig maður borðar. Það er frábært að vera hérna. Sól og sangría.

3 ummæli:

Harpa sagði...

Góður pistill og svo er þetta svakalega fín mynd af þér!

Guðrún sagði...

Réttri hugsun er náð þegar fólk, sem er á "kúr" skilur að kúrinn er fyrir lífstíð en ekki e-ð sem endar og þá sé allt gott. Sömu hugsun þarf að ná í sambandi við líkamsrækt. Það er ekki nóg að kaupa þriggjamánaða kort í ræktina einu sinni. Það þarf að finna sér hreyfingu sem fólk nennir að stunda alltaf.
Það er þetta sem þú ert að segja, ekki satt?

murta sagði...

Bingó mamma, þú vinnur Toyota Yaris :)