miðvikudagur, 26. október 2011

Skink´og ostur hvað!
Mánuðurinn senn á enda, og þar með buddan jafn galtóm og búrið. Ég fæ ofbirtu í augun þegar ég opna ísskápinn, og það má jafnvel heyra þar bergmál. En það er ekki hægt að gefast upp og á þessum síðustu og verstu verður maður að nýta sér það litla sem maður finnur aftast í matarkistunni. Og það verður líka að halda áfram að fylgja lögmálunum um hollustu ofar öllu. Ég á alltaf til dós af kjúklingabaunum. Og hvítlauksgeira og smávegis ólívuolíu. Stundum er ég heppin og á smá tahini líka. Ég get sem sagt eiginlega alltaf smellt í smá húmmús. Og þegar maður á húmmús er allt hægt. Ég á það líka til að passa að eiga alltaf nokkrar gulrætur. Ég átti líka til inni í frysti ægilega góðan hlunk af grófu brauði sem ég hafði bakað fyrir nokkru. Og datt í hug að ég hafði einhverstaðar séð gulrótarsamloku. Þannig að það var það sem ég gerði. Raspaði niður gulrót, blandaði við hana matskeið af húmmús og smurði svo blöndunni á brauðið. Kryddaði aðeins með svörtum pipar og hey prestó! Besta samloka sem ég hef nokkurn tíman borðað. Hádegi í vinnunni var hreinn unaður. Voðalega er gaman að bjarga sér.

Engin ummæli: