sunnudagur, 23. október 2011

Ég var þreytt í dag. Ég er búin að vinna og hlaupa og hlaupa og vinna, og fá lítinn tíma til að slaka á. Og þetta á eftir að halda áfram. Í dag sagði líkami minn því við mig að ég ætti að taka því rólega. Mig langaði smávegis út að hlaupa en ég fann það að það var ekki góð hugmynd. Ég er enn að venjast auknum kílómetrafjölda og með annarri líkamsrækt sem ég stunda er bara nauðsynlegt að leyfa kroppnum að fá smá pásu líka. Og það sem er allra mikilvægast; að leyfa mér að skilja að frídagur er ekki neitt til að hafa samviskubit yfir heldur nauðsynlegir til að geta haldið áfram og orðið betri í því sem ég er að gera. Þannig að ég gerði það sem ég geri best til að slaka á, stússaðist í eldhúsinu. Byrjaði á alveg hrikalega óhollum brauðbollum sem ég kalla norskar enda minna þær mig á brauðbollurnar sem ég fékk hjá Ástu (Tynes) í noregi. (30 ár liðin og ég man enn bragðið). En ekkert veit ég betra en að bera nýbakað og nýuppáhellt á borð og sitja við rólegheitaspjall yfir sunnudagsbrunchi með strákunum mínum. Og finn stressið líða úr líkamanum. Svo var það venjulegt bras við múffur, nú með hnetusmjörsdropum og pestoeggjamúffur. Svo prófaði ég mig áfram með "crackers" bakaðar úr kjúklingabaunum og endaði á bauna-og brokkólí carbonara.

Baunacarbonara
Það er mikill misskilningur að carbonara sé þykk rjómasósa sem er bannvara fyrir okkur fitubollurnar. Alvöru carbonara er búin til úr pancetta, eggi og parmesan. Og það var það sem ég gerði. Breytingin frá hefðbundnum ítölskum rétti var fólgin í að sleppa pastanu og bæta inn baunum og brokkólí. Ég létt steikti örfáa pancetta bita á pönnu með mörðum  hvítlauk og smellti svo dós af smjörbaunum þar út á og hitaði í gegn. Á meðan gufusauð ég tenderstem broccoli. (það er brokkíló með lengri stilk, ég veit ekki hvað það heitir á íslensku. Næst ætla ég reyndar bara að nota venjulegt brokkólí því það er auðveldara að dreifa sósunni um það) Ég hafði hrært saman einu eggi og uþb 35g af rifnum parmesan, saltaði og pipraði og hellti svo pancetta, hvítlauksblöndunni út í brokkoli pottinn. (Ég held reyndar að betra væri að hella eggjablöndunni út á pönnuna eftir að taka hana af hitanum. Hræra út og hella svo brokkólíinu þar út í.) Þar út í fór svo eggjahræran og ég hrærði vel til að láta hitann elda eggið. Skreytti svo með ristuðum furuhnetum. Ekkert pasta, en þetta verður miklu hollara með baunum og alveg frábær máltið. Og ég ætla að fara með með mér kalt í vinnu á morgun.

1 hvítlauksgeiri, marinn
2 msk pancetta bitar eða 2 sneiðar fitulítið beikon, smátt skorið
1 msk EVOO
1 dós smjörbaunir
200 g tenderstem brokkólí (eða venjulegt brokkólí)
1 egg
35 g ferskur parmesan
salt og pipar
ristaðar furuhnetur til skrauts

Engin ummæli: