sunnudagur, 25. desember 2011

Strákarnir mínir rétta mér aðalpakkann.
Ætli þessara jóla verði ekki minnst sem hlaupajólanna miklu. Ég fékk nýja hlaupaskó, hanska og húfu (hanskar of stórir, húfa of lítil -aftur! Ég er greinilega með litlar hendur/stóran haus. Ekki gott kombó), hlaupasokka og hinn langþráða Garmin. Já, ég er komin með Garmin 305 í hendurnar. Hlóð hann í gærkveld um leið og hann kom upp úr pakkanum og setti inn tölvukerfið í löppuna og var þess vegna albúin að fara út í einn hring í morgun. Fór í allt nýtt og út. Ég var smávegis upptekin við að ýta á takka og fatta hvernig allt virkaði þannig að það í blandi við alveg hrikalegt rok þýddi 5 km á 36 mínútum. Eða ég ætla alla vega að afsaka seinaganginn með því (ásamt að sjálfsögðu að vera með svín, malt og appelsín, rjómagraut og konfekt í mallakút síðan í gærkveldi). Ég fór útmælda 5km hringinn minn og Garmin segir hann vera 4.6 km. Þannig að ég er miklu hægari en ég hélt. Ég hef því ákveðið að í dag er dagur eitt í mælingum. Ég byrja bara upp á nýtt. En gott var það að byrja daginn á skokki.

Lukkan yfir einni kjéllingu!
Öll statíkin og tölfræðin sem fylgir úrinu lokkuðu og löðuðu stærfræðinördinn sem ég er gift og nú er ég að vona að ég geti táldregið hann með mér í hlaupin. Maður hleður inn öllum upplýsingum um hlaupin og það er fyrirsjáanlegt að maður fyllist keppnismóð við að grannskoða og analýsera allar upplýsingarnar. Sé fyrir mér að ég stýri 5km prógramminu með honum á kvöldin, hlaupi bara mitt 10 km prógramm á morgnana. Það væri alveg æðislegt að fá hann í þetta með mér, ekki væri leiðinlegt að vera saman hjónin á hlaupum um allt.

Aðfangadagur-og kvöld semsagt að harðíslensku sniði hér í Wales, en með breskara móti á jóladag. Og án þess að lasta ættleiddu fósturjörðina þá bera íslensk jól herðar og höfuð yfir þau bresku. Hér er fólk bara fullt og í joggingöllum. Ég er búin að amast við þessu núna í 9 ár og ætti að fara að slaka á yfir þessu, en virðist bara ekki getað komist yfir þennan menningarmismun. Mjög hrokafullt af mér, ég geri mér grein fyrir því, en mér sýnist ég ekki geta breytt viðmóti mínu úr þessu. Vorkenni Dave reyndar smávegis því ég veit að hann vildi að Lúkas fengi að prófa að vakna á jóladagsmorgun og hlaupa niður í spenninginn við að opna pakka. Ég veit ég er vond að þverneita öllum málamiðlunum en svona verður þetta bara að vera. Það er stundum ekki hægt að þóknast öllum.

Nú ligg ég á meltunni eftir kalkúninn hjá tengdó og þakka gvuði og gæfunni fyrir að hafa hlaupið í morgun. Ekki það að ég hafi náð að vinna mér inn debit fyrir öllu því sem ég át en samt skárra en ekkert. Og nudda saman höndum af tilhlökkun þegar ég verð orðin nógu svöng aftur til að fá mér slettu af jólagraut. Hann tókst með eindæmum vel í ár.

Engin ummæli: