|
Ég og mamma í Wales sumarið 2006. |
Ég var eitthvað að grufla í tölvunni hans pabba og fann þar myndaalbúm sem mamma hafði sett inn af heimsókn þeirra til okkar Dave og Lúkasar sumarið 2006. Þónokkrum árum áður en ég byrjaði að garfa í að breyta lifnaðarháttum mínum á annan hátt en að fara bara öðruhvoru í frantískar megrunir og svo eftirfylgjandi átköst. Mér sýnist ég jafnvel feitari þarna en ég var í mars 2009. Myndin kom sem ágætis áminning í kvöld. Þrátt fyrir að hafa byrja dagana á sama háttinn hér og ég geri heima; með nettum skammti af hafragraut og svo skemmtiskokki með mömmu þá finn ég hvernig ég er alltaf að eiga meira og meira erfitt á kvöldin. Kæruleysið "það eru nú jólin og ég er á Íslandi og ég er svo foxý og ég fæ aldrei Nóakropp" er alveg að fara að taka yfir. Og þrátt fyrir að vera þó nokkrum Nóa kropps pokum frá því að verða aftur eins og ég er á myndinni þá er alltaf undirliggjandi örlítill ótti að ég sé enn fyllilega fær um að koma mér aftur á þennan stað. Og það er oft sem ekkert af trixunum mínum dugar og ég ræ um í skelfingu yfir tilhugsuninni. Ég veit vel að ég get fengið mér smá Nóa kropp og haldið svo áfram mínu striki. En ég get ekki að því gert en að hugsa með mér að ég sleppi bara nartinu þegar ég er minnt svona óþyrmilega á hvernig ég var. Ég man þetta nefnilega vel. Hversu hægt ég labbaði. Hvað ég var með sár lærin af núningi. Hvað ég átti ekkert af fötum sem hentuðu sumarhitanum. Hvað ég svitnaði undir brjóstunum. Hvað ég var skelfingu lostin að setjast í stól á veitingastað sem leit ekki út fyrir að halda þunganum. Hvað þetta var ERFITT. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn; það er erfiðara að vera svona feitur en að fara út að hlaupa. Það er erfiðara að vera svona feitur en að neita sér um einn Nóakroppspoka. Það er miklu, miklu erfiðara.
Tilgangurinn er ekki að láta fólki líða illa á aðventunni. Auðvitað fylgir eðlilegu lífi örlítið kæruleysi og smávegis nautnalíf. Mig langar frekar til að minna fólk á að það er alltaf til von. Að það er alveg sama hversu svart þetta virðist að það er alltaf leið út úr ógöngunum. Og að það er alltaf ástæða til að halda áfram.
Þannig að ég ætla bara að leggja frá mér pokann og njóta Íslands á annan hátt en með lúkurnar útataðar í súkkulaði. Til dæmis svona:
|
Ég og mamma á skokki í morgun. |
3 ummæli:
VÁ munurinn á þér. Þó að maður sjái myndirnar alltaf hér til hægri þá sér maður þetta ekki eins vel og á þessum 2 myndum.
Þú ert ekkert smá dugleg og með hausinn svo rétt skrúfaðan á. Ég er einmitt aaaðeins að tapa mér í nammisendingunum frá Íslandi en passa að hreyfa mig nóg svo ég þyngist ekki.
Smá öfund yfir öllum jólasnjónum en við gerum hið besta úr jólunum í JApan enda verða þau afslöppun ársins! :)
Tek algerlega undir með fyrri ritara! Þú ert alveg með toppstykkið rétt skrúfað á! Ég er einmitt í baráttu við innri-púkan minn nú þegar ég hef hafið þessa vegferð mína að fullri alvöru. En það er á hreinu að þú ert ein stærsta hvatningin mín :)
Gleðilega hátíð glæsikvendi!
-Ásta (barattan.wordpress.com)
Takk fyrir stelpur og gleðilega hátíð. Ég skrifa þetta nú með mallann yfirfullan af einhverri vitleysu en við vitum líka hvað gerist næst; jú, maður bara heldur ótrauður áfram að taka réttu ákvarðanirnar.
Þetta kemur allt með kalda vatninu. xx
Skrifa ummæli