mánudagur, 19. desember 2011

Það hefði þótt saga til Eyrabakka fyrir nokkru síðan ef ég hefði byrjað afmælisdaginn á léttu skokki um snæviþaktar gangstéttar heimabæjar míns. 37 ára og aldrei verið betri. Opnaði pakka, knúsaði mömmu og pabba og Lúkas og fór svo út að hlaupa. Á Íslandi er kalt og dimmt. Og miklu kaldara og dimmara en manni finnst í minningunni. Mér bregður alltaf smávegis þegar ég kem heim og finn kuldann. Klæddi mig bara aðeins betur en í Rhos og fór út. Þorpið mitt hefur breyst á þessum 9 árum sem ég hef verið í burtu, og það mikið að ég fann allskonar göngustíga og slóða sem ég kannaðist ekkert við. Horið fraus í nefinu við hvern andardrátt og ég verð að viðurkenna að ég hefði átt að klæða lærin betur, þau urðu helblá. En djöfull var þetta gaman. Trax gormarnir svínvirka, ég var öruggari en þegar ég hleyp í rigningu í Wales. Og hnéð fraus bara og ég fann ekkert fyrir bólgu eða verkjum. Frábært. Síðan þá hef ég ekki komist út fyrir veðri. Er meira að segja farin að íhuga að nota bretti út í íþóttahúsi. Ég veit samt að ég þarf að byrja aftur í prógrammi. Síðan ég hljóp 10 km hef ég verið að hlaupa bara svona eitthvað og vantar orðið meiri staðfestu. Ég ætla að endurtaka 10 km prógrammið. Mér finnst best að vera með plan.
Þollararnir fríðu.
Afmælispartýið var svo líka alveg frábært þó sjálf hafi ég orðið aðeins of spennt og æst og þurfti að lokum að leggja mig. Ég er bara ekki í þjálfun! Áfengi er eitt af því sem mér fannst fínt að sleppa, ég sakna þess ekki að fá mér eitt og eitt glas, get alveg sleppt því og sparað mér hitaeiningarnar.

Ég er svo bara á fullu í að njóta þess að vera heima. Fæ öðruhvoru svona kast inni í mér þar sem ég hugsa að ég verði að hlaupa út í búð að kaup Nóa kropp og Lindubuff á meðan ég hef tækifæri til, en stoppa sjálfa mig svo af vegna þess að ég finn að þetta er tilbúin tilfinning. Mér finnst bara að ég þurfi að fá þetta en langar ekki í í alvörunni. Ég held að mig vanti alltaf smá drama. Áður fyrr hefði ég látið dramann ráða ferðinni og eftir ákvörðunina um að hætta að borða mat og drekka bara laxerolíu á meðan ég tjaldaði í ræktinni hefði óhjákvæmilega fylgt dramatískt atriði þar sem ég myndi troða í andlitið til að bæta upp skortinn. Ég held mig enn við dramatíkina. Tek mismunandi ákvarðanir, ríf í hár mitt og skegg og kveina um að léttast hægt, breyti um skoðun og taktík stanslaust. Munurinn er að undir dramanum núna er stöðugur grunnur sem ég get alltaf leitað til og heldur dramanum í skefjum. Draminn kryddar þetta bara og gerir spennandi. En það að vita að undir niðri er ég samkvæm sjálfri mér er það sem þetta snýst um í alvörunni.

Hrossabjúgu í kvöld. Namm.

Engin ummæli: