sunnudagur, 4. desember 2011

Við byrjunarreit. 
Og svo rann hann upp. Sunnudagurinn þar sem ég tók þátt í alvöru kapphlaupi. Helena Tipping minningarhlaupið er árlegur viðburður hjá hlaupurunum hér í Wrexham og nágrenni og það var greinilegt á allri skipulagningu og uppsetningu. Við skildum Láka eftir hjá tengdó og keyrðum þangað sem hlaupið var haldið í útjaðri Wrexham. Þar voru samankomnir uþb 300 manns og mér féllust smávegis hendur þegar ég var komin á byrjunarreit; ég var sennilega ein sem leit "venjulega" út. Allir hinir voru greinilega margreyndir hlauparar í hlírabolum og knallstuttum stuttbuxum í grenjandi rigningu og roki. En það var of seint að hætta við, ég var komin til að hlaupa.

Ég kom mér fyrir alveg aftast til að vera ekki fyrir neinum og áður en ég vissi af var flautað og við lögðum af stað. Á undir þremur mínútum fóru allir fram úr mér og ég var komin alveg aftast. Var alveg síðust. Ég hugsaði með mér að það skipti í alvörunni ekki máli, ég myndi örugglega sjá fólk hægja á sér og byrja að labba von bráðar ef það ætlaði að byrja svona skart. Hélt mér á tæpum 7 mínútna hraða og naut þess þegar sólin skein skyndilega í gegnum skýin og rigningunni slotaði. Það var smávegis skrýtið að vera öftust, sjúkrabíll keyrði löturhægt á eftir mér og ég gat ekki gert neitt nema haldið tempói. Ég sá alltaf í aftari hópinn á þessum tíma og naut þess bara að vera úti og hlaupandi. Tók svo fram úr tveimur hlaupurum og var þá að minnsta kosti ekki síðust lengur. Nikeplus pípti svo til að láta mig vita að ég hafði hlaupið í hálftíma og ekki löngu eftir það sá ég 3ja mílna merkið. Það voru engin kílómetra merki svo ég reiknaði fljótt út að ég þyrfti að fara rétt rúmar 6 mílur.

Rétt að komast í mark
Það var á þessu marki sem ég tók eftir að ég var ein. Ég sá engan á undan mér og ég heyrði ekki lengur í þeim sem voru fyrir aftan mig. Ég fann að ég var að hlaupa dálítið hratt og hægði á mér til að eiga orku lengur. Skyndilega sá ég 4 mílna merkið og hugsaði að þó ég væri orðin þreytt þá gæti ég örugglega komist 2 mílur í viðbót. En svo byrjaði að rigna. Og rigna og rigna og rigna. Þykkt lag af grárri rigningu svo ég sá vart úr augum. Og sjúkrabíllinn fór fram úr mér, bílstjórinn gaf mér thumbs up og keyrði svo í burtu. Mér datt helst þá í hug að þessi tveir sem voru fyrir aftan mig hefðu gefist upp og nú væri ég aftur orðin síðust. Skiptir engu, ég er hérna, ég er hlaupandi, ég hef ekki stoppað og ég held bara áfram. Skiptir ekki máli þó það sé smá vandræðalegt.

Við fimmtu mílu var ég alveg búin á því. Þurfti þá að nota hugsanir sem snérust um hvað ég væri dugleg. Hvað ég hefði gert miklar og góðar breytingar á lífi mínu. Og svo pípti tækið og sagði að ég hefði hlaupið í klukkutíma.Gat ekki annað en kíkt á nikeplus til að sjá hvað það væri langt eftir. Og sá að ég hafði farið rúma 9 kílómetra. Vissi þá að nikeplus var ekki að mæla þetta rétt, eins og ég reyndar vissi alveg eftir að hlaupið með Hörpu og Ólínu í Chester og garmin tækin þeirra sýndu allt annað en græjan mín. Fylgdist eftir það vel með og þegar tækið mitt sýndi 10 km hafði ég hlaupið í 67 mínútur. Sem miðað við hin vitlaust mældu hlaupin mín er náttúrulega gífurleg bæting. Svo var ekkert annað en að halda áfram í gegnum rokið og rigninguna.

Lokamarkið kom svo nokkuð óvænt. Dave beið eftir mér, stóð úti í rigningunni til að hvetja mig áfram og ná af mér mynd.

Ég fann lítið fyrir adrenalíni eða hvatningu frá öðrum hlaupurum af því að ég var alltaf ein. Næst myndi ég vilja taka þátt í hlaupi þar sem fleiri á mínu leveli taka þátt. Og ég ætla að nota næstu 12 mánuðina til að léttast og æfa mig og næst þegar ég tek þátt verð ég ekki öftust.

Fyndnast er að þetta var mitt fyrsta 10 km hlaup. Hin skiptin sem ég hljóp þessa vegalengd hef ég sjálfsagt bara farið 9.5. Þannig að ég ætla að taka þessu sem persónulegu meti. Samkvæmt opinberum tímamælingum skipuleggjaranna hljóp ég 10 km á 70:24. Og var fimmta frá botni. Ég skil þessvegna alls ekki hvar hinir fjórir hlaupararnir voru, ég tók alls ekki eftir því að það væru fleiri en tveir á eftir mér.

Ég er gífurlega stolt af sjálfri mér. Þetta var alveg svakalega skemmtilegt og nú hef ég alvöru markmið til að koma 10 km hraðanum mínum niður fyrir 70 mínútur. Og ég er líka búin að vera rosa góð stelpa í ár og fæ vonandi garmin frá jólasveininum. Mér finnst ég eiga það skilið.

6 ummæli:

Guðrún sagði...

Váááá´.... hvað mamma og pabbi eru stolt!!

Hanna sagði...

Ógeðslega flott hjá þér stelpa - stórt knús frá mér! Ég undra mig þó á því að þú hugsir um alla þá sem voru fyrir framan þig og að þú hafir verið nánast síðust, í stað þess að hugsa um alla þá sem eru á eftir þér; þ.e. þá sem aldrei hafa stigið upp úr sófanum, aldrei hafa lagt alla vinnuna á sig, aldrei hafa farið tvo kílómetrana og hvað þá tíu og þá sem aldrei hafa snúið svo rosalega við lífinu, þrátt fyrir að langflest okkar hafa vit og þekkingu til!!
U go görl :-)
Hanna

Inga Lilý sagði...

FRÁBÆRT!!!!!! Innilega til hamingju með frábært hlaup. Það er hrikalega erfitt að hlaupa í kaldri rigningu og sérstaklega þegar manni finnast "allir" vera í betra formi en maður sjálfur en þú kláraðir og gerðir það MEÐ STÆL!!

ÓTrúlega flott hjá þér og þetta verður bara auðveldara og skemmtilegra með tímanum.

Og til hamingju með flottu buxurnar í stærð 14!!! Skil vel að þú sért komin í stærð 14, finnst þú geggjað mjó á fyrstu myndinni hérna sem sýnir leggina svona vel.

Bestu baráttukveðjur héðan frá Tokyo

Nafnlaus sagði...

Þú ert algjörlega frábær. Til hamingju með þennan flotta árangur.
Love, Lína

murta sagði...

Takk fyrir! :) Og Hanna! Þetta fannst mér flott, auðvitað fór ég hundrað sinnum hraðar en þeir sem sátu heima ;) Awesome!

Nafnlaus sagði...

Sæl Svava
Ég les stundum bloggið þitt og nota margar af uppskriftunum þínum, takk fyrir mig ;-)
En aðalerindið var samt að óska þér til hamingju með fyrsta keppnishlaupið! Kannast vel við upplifunina sem þú lýsir ;) Að láta t.d. eins og manni sé sama að vera síðastur en vera samt í raun alls ekki sama!
Hrafnhildur