laugardagur, 10. desember 2011

Þegar maður er að berjast við feituna og/eða ljótuna þykir mér skynsamlegast að gera þveröfugt við það sem manni langar til að gera. Tilhneigingin er að fara í joggarann eða mussu, setja hárið í lufsulegt tagl, sleppa málningunni og láta augabrúnir missa lit og lögun. Þetta hjálpar ekki til við ljótu og feitu. Eins erfitt og það er þegar þessi skaðvaldur ber á dyr þá er alveg lífsnauðsynlegt að taka á því sem allra, allra fyrst og lita og plokka, fara helst í partýgallanum  út í Kaupfélag og mála sig enn meira en vanalega. Kaupa jafnvel rauðan varalit, eða byrja að nota kinnalit. Varast skal þó öfgar og ég mæli eindregið gegn róttækum aðgerðum eins og klippingu á þessum tímapunkti. Það getur aldrei endað vel.

Sjálf er ég búin að berjast við eitthvað sem ég held að ég ein í heiminum þjáist af. Ég er búin að vera með  mjóuna alla vikuna. Mér finnst ég svo mjó. Það er náttúrulega alveg ljómandi tilfinning og það eina slæma sem mjóunni fylgir er hálfgert kæruleysi. Þetta byrjaði allt með hringunum mínum á mánudagsmorgun. Vanalega hef ég fengið mér eitthvað skrýtið á sunnudegi en öfugt við öll mín plön eftir kapphlaupið sem sögðu að ég gæti étið eins og mig lysti eftir hlaup, þá bara gleymdi ég að troða í mig. Þannig að þeir hringluðu á beinunum á mánudeginum. Og ég sá að ég var þvengmjó. Á þriðjudeginum fékk ég svo að heyra frá samstarfsmanni mínum að ég væri alltaf að grennast. Hann sæji mun á mér dag frá degi. Og þar með kom það. Ég er mjó og þarf ekki frekar að pæla í þessu. Í sambland við þetta er svo búið að vera brjálað að gera í vinnunni þannig að ég hef verið að borða á hlaupum lítið og illa. Er eiginlega búin að vera svöng alla vikuna sem náttúrulega endar með því að ég fæ mér kitkat á miðvikudegi. Og fimmtudegi.Og eftilvill á föstudegi líka.  Hlaup voru bara tvö 5 km spretthlaup sem er einn þriðji af því sem ég vanalega geri.

Partýgallinn útpældur og tilbúinn
Þetta allt samanlagt þýðir að ég vakna svo í morgun með feituna. Er að fara í svakalegt jólapartý í kvöld í galla sem krefst þess að ég sé ekki bara mjó heldur með mjótt hugarfar líka. Þannig að ég er núna búin að gera gagnárás. Er komin í feitustu fötin mín og ætla ómáluð og hrikaleg til Wrexham með Láka í klippingu. Þannig verð ég feit og ljót í allan dag og þegar ég svo fer í mjóa gallann minn og set á mig stríðsmálningu kem ég til með að finna svo svakalegan mun að ég verð aftur þvengmjó. Up there for thinking!

3 ummæli:

Hanna sagði...

....og þegar kona er með plan má hver maður vara sig .....

Nafnlaus sagði...

Jæja, það er ekki nóg að sjá mynd af fötunum. Ég vil sjá mynd af konunni í fötunum :)
K.kv Tóta

murta sagði...

Coming right up Tóta ;)