Það var alveg voðalega gaman á laugardagskvöldið og ekki síður fyrir það að mér fannst ég vera ægilega foxý. Og ekki bara foxý heldur líka mest kúl af öllum kellingunum á svæðinu. (Það var ekki jafn gaman á sunnudagsmorgun og ég var hvorki kúl né foxý þá en við látum það liggja á milli hluta.)
Ég er rétt um 86 kíló. Og án þess að vera eitthvað að segja að nú sé ég hætt og búin að gefast upp og gefa sjálfri mér veiðileyfi á næstu Makkintossdollu nú á jólavertíðinni þá verðum við líka að vera raunhæf. Það er stundum bara betra að láta sig berast með straumnum frekar en stanslaust að vera að berjast á móti með pusið í andlitið endalaust. Í stað þess að einblína á vigtina nú næstu dagana ætla ég að halda áfram að skemmta mér.
Mér finnst nefnilega gaman núna. Tengdó gaf mér pening í afmælisgjöf og ég fór í Next á sunnudaginn og keypti mér gallabuxur; slim fit, númer 14. Mig langaði til að fá mér feitan borgara og Pringles í þynnkunni en rétti mig við með buxunum. Það er kannski dálítið drasktískt en mig vantaði eitthvað áþreifanlegt til að minna mig á að það er svo miklu betra að passa í slim fit buxur en að fá feitan borgara. Og það allt án þess að finnast ég vera undir einhverri pressu. Ég borða KitKat og fæ smá samviskubit, en svo jafna ég það út með hreyfingu og með skynsamlegum ákvörðunum í þynnku og með 95% súperhollu fæði að öðru leyti.
Svo er ég farin að hlakka til að koma heim. Er með snjógormana tilbúna á hlaupskónum þannig að ég ætti að geta hlaupið smávegis á milli þess sem ég borða pissuköku og hitti vini og fæ mér göróttan drukk og sýni Láka jólaljósin á Íslandi. Og ég og alheimurinn erum í jafnvægi.
1 ummæli:
Þvílík skvísa!
Skrifa ummæli