föstudagur, 27. janúar 2012

Heimild
Ég er búin að velta þessu fyrir mér fram og til baka. Ég setti sjálfri mér nokkuð háleit markmið í ársbyrjun og ef satt skal segja þá hefur mér ekki tekist sem skyldi að ná þeim. Sjálf hef ég ekki áhyggjur af því að hafa ekki náð markmiðunum, það sem ég hef meiri áhuga á að rannsaka er afhverju ég náði ekki markmiðunum sem ég tilskyldi. Eftir allt þá hef ég alltaf haldið því fram að þetta sé einföld stærðfræði, kalóríur inn, kalóríur út. Hvað er að halda aftur af mér?

Í nokkra mánuði núna hef ég reynt sjálfa mig á því að lifa af meðalhófi. Ég vil trúa því að mér sé treystandi, að ég geti tekið skynsamlegar ákvarðanir, að ég sé nógu vel gefin til að vita hvað er gott fyrir mig og hvað er tilbúin hollusta. Og mér gengur ágætlega. Ég borða hollan og góðan mat á virkum dögum, um helgar fara hlutirnir aðeins úr böndunum og svo tek ég aftur ákvörðun um að borða hollt og gott og geri það alla vikuna. Og ét svo yfir mig um næstu helgi.

Og ég er farin að trúa því að ég geti ekki lifað af meðalhófi. Að sykur hafi meiri og þéttari tök á mér en ég ræð við. Eins heitt og mig langar til að geta sagt að ég sé nógu sterk til að fá mér einn bita, eina sneið, einn mola, þá verð ég núna að viðurkenna að það er bara ekki svo. Ég get haldið nógu vel við mig, svo vel að ég fitna ekki. En ég þjáist enn af lönguninni. Og hún er alveg jafn sterk, alveg jafn brjálæðislega óviðráðanleg og fyrir þremur árum síðan. Láttu mig fá kexpakka og ég hætti ekki fyrr en hann er búinn. Og mér leiðist þessi endalausa barátta. Ég vil bara vera frjáls. Svona eins og ég er frjáls frá sígarettum núna.

Ég prófaði fyrir nokkru síðan að borða engan unninn sykur í mánuð. Mér fannst það fínt, og það var tilraun sem ég var sátt við en þegar öllu var á botninn hvolft þá fann ég ekki mikinn mun. Og ég sé það núna að ég gekk ekki nógu langt. Það er núna kominn tími til að ganga alla leið og taka allan sykur út. Og þá meina ég allan frúktósa. Þar með talið ávexti, ferska og þurrkaða eða í sultuformi. Ég þarf að taka út allan sykur til að frelsa sjálfa mig frá þessari fíkn fyrir fullt og allt. Ég ætla að nota næstu vikuna til að æfa mig og venja mig á þetta smávegis og svo er það bara að taka hann allan út.

Sykur á sér djúpstæðar rætur í okkur öllum. Það er ekki nóg að þurfa að díla við hreina líkamlega fíkn heldur er tilfinningaleg tengsl við sykur ótrúlega sterk líka. Sem verðlaun, huggun, sem félagi. Allt þetta veitir sykurinn og tilhugsunin um að yfirgefa þennan vin er náttúrulega ógnvekjandi. En ég þarf að fá að þekkja líkama minn og þarfir hans án þess stanslaust að berjast við að fæða sykurþörfina fyrst.

Frúktósi veitir enga fyllingu, hann meira að segja vekur þau viðbrögð í líkamanum að troða og troða í sig. Margar rannsóknir sýna að frúktósi hefur ekki sömu rísandi áhrif á insúlin í líkamanum og glúkósi. Þessvegna heldur fólk því fram að agave (90% frúktósi) sé hollustuvara. En þetta er ekki endilega sniðugt vegna þess að insúlin er eitt af hormónunum sem sem stjórnar matarlyst. Að gefa líkamanum því næringarefni sem hann sér sem enga ástæðu til að segja manni að maður sé orðinn saddur, búinn að fá nóg, er þessvegna ekki sniðugt. Og bara ávísun á ofát. Sykur (frúktósi) ruglar í hormónakerfinu í líkamanum, skapar löngun og þráhyggju og leiðir þannig til hins óhjákvæmilega vítahríngs megrunar og ofáts.

Ég ætla þvi að gefa því sjéns að prófa að sleppa frúktósanum í nokkrar vikur og sjá hvernig mér líður. Án þráhyggjunnar ætti ég að geta fundið jafnvægið sem ég er alltaf að leita að.

Ég ætla að sleppa (að venjulegum hvítum sykri og hvítu hveiti að sjálfsögðu meðtöldu):

Ávextir
Ávaxtasafi
Þurrkaðir ávextir
Sulta
Tilbúnar sósur (tómat og bbq)
sojasósa
balsamic edik
hunang
agave
sweet freedom
hlynsýróp
pálmasykur
og auðvitað súkkulaði, gosdrykkir, kex og kökur.

Ég er gífurlega spennt. Mér finnst ég hafa rannsakað málið til hlýtar og hafa komist að vel ígrundaðri niðurstöðu. Mér finnst ég hafa vísindin með mér í liði. Ég hef líka engar sálrænar ástæður fyrir ofátinu. Það eru engar tilfinningabeinagrindur í mínum skáp. Ég verð þessvegna að líta til hins líkamlega og fara að íhuga að ég er kannski bara sykurdópisti. Að ég sé að berjast við efni sem ég hef litla stjórn á. Og að lokum þá veltur velferð mín og hamingja á því að geta verið frjáls. Og til að fá að reyna frelsið verð ég að gefa dópið upp á bátinn. Mér líður betur nú þegar.
2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er rosalega léleg að kvitta... en verð bara að koma með hvatningarkomment núna! Þú veitir manni svo mikinn innblástur og ég dáist svo að staðfestu þinni í leitinni að rót vandamálanna í staðinn fyrir að gefast bara upp!

Húrra fyrir þér duglega stelpa!

Kv. Ásta María, dyggur aðdáandi.

Nafnlaus sagði...

Vá - hlakka til að fylgjast með :)

you go girl!!!

kv. Þórdís, aðdáandi.