|
Við Ásta í London í nóvember. |
Það var í miðju samtali við hana Ástu mína sem ég öðlaðist nýjan fókus. Það er reyndar oft þannig þegar ég tala við hana, hún á það til að benda mér á hitt og þetta sem ég segi og snýr því tilbaka til mín og lætur mig hugsa um það sem ég segi og um það sem ég geri. Ég var að væla. Enn sem áður. Og ég var að nota orð og frasa eins og "dæmd" og "föst" og "ákveða bara að fara á sykurfyllerí" og þar fram eftir götunum. Hún spurði mig þá afhverju ég gæti ekki hugsað um mat eins og ég hugsa um sígarettur. Mig langar sko alltaf smá í sígó. Mér fannst alltaf voða gott að reykja. Og stundum, eins og þegar ég er með eitthvað í glasi, eða eftir góða máltíð, eða þegar ég hitti Rannveigu eða Auði, þá langar mig alveg svakalega í sígó. En ég fæ mér ekki.
Ég ætti að hugsa um sykurmat og hveitibrauð á sama hátt. Mig langar kannski alltaf smávegis í og stundum, við sérstakar aðstæður, kemur mér til að langa alveg voðalega mikið í. En ég fæ mér samt ekki af því að ég veit að það er verra fyrir mig að fá mér en að sleppa því bara.
Ég er búin að vera svona þenkjandi síðan á mánudag. Og sem stendur er ég með skýrasta móti. Ég er að sætta sjálfa mig við tilhugsunina um að "langa alltaf smá" en að það sé bara svona í bakgrunninum og færist svo fjær og fjær. Það eru núna oft löng tímabil þar sem ég man ekkert eftir því að mig langi í smók. Heilu mánuðirnir. Kannski að það verði að lokum bara þannig með glassúrinn og fransarann?
Ja, nema ég fái mér bara rettu og kók?
1 ummæli:
Úff hvað þú átt skynsamavinkonu. Ég ætla að taka speki hennar til mín og hugsa þetta næst þegar mig langar í sykur eða brauð....
Tóta
Skrifa ummæli