mánudagur, 23. janúar 2012

Þrjú ár af skólamyndum, loksin í ramma. 

Horft inn í stofu

Nýtt sófaborð, hliðarborð, körfur, lampi, kaffibolli. Vantar málningu.


Hvað ég elska IKEA mikið. Nú er allt í lífi mínu komið í röð og reglu, allt komið ofan í körfu, sett í ramma, í stíl og nett samansett. Það á að sjálfsögðu eftir að mála veggina, það þarf að bíða eftir að gipsið þorni alveg, og við þurfum víst líka að hafa tíma til að gera það almennilega. En þetta er allt í áttina hjá okkur.

Næsta IKEA við okkur er í Warrington, í uþb klukkustundar keyrslu frá Wrexham. Og við áttavilltu hjónin erum ekkert of spennt að leggja á okkur að villast þetta. Eins gaman og mér finnst í IKEA þá er bara heilmikið á hjónabandið lagt þegar við keyrum út. Síðast keyrðum við hring um hafnarsvæðið í Liverpool áður en við komumst aftur heim. Ég held því fram að guðirnir passi vanalega upp á það að úthluta í samband einum lóðsara og einum áttavillingi. En eitthvað fór þetta úr skorðum hjá okkur Dave þvi við erum bæði svo áttavillt að vandræði stafa af. Í hvert sinn sem við reynum að komast eitthvað reynir á hjónabandið til hins ýtrasta þar sem taugarnar þenjast við hverja vitlausa beygju og sveigju og eftir því hversu langt við færumst frá áfangastað. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að við hreinlega gefumst upp og förum bara heim aftur. En hjónabandið blífur þannig að kannski eru þessir litlu útúrdúrar okkar bara gerðir til að gera okkur að vandaðra pari.

Warrington sjálf er sérlega óspennandi bær, og lítið þangað að sækja. Nema náttúrulega þetta flennistóra IKEA. Við vorum undirbúin, skildum Láka eftir hjá tengdó, vorum með innkaupalista og nógan tíma fyrir okkur. Ég fyllist einhverju ská þjóðarstolti þegar ég kem þangað, ég veit hvað senapssild er og skil nöfnin á húsgögnunum. Við röltum um í rólegheitum, tíndum ofan í körfuna af listanum og skoðuðum eldhús. Fengum okkur að sjálfsögðu kjötbollur og sultu áður en við héldum heim aftur.

Og öllum að óvörum tókum við bara einn aukasveig á leiðinni heim, fórum yfir bæði River Mersey og River Dee og komumst klakklaust frá Englandi heim til Norður Wales. Batnandi fólki er best að lifa.

Ég er núna búin að skrúfa saman stofuborði, hliðarborði og leslampa, setja myndir í ramma og setja allt smáleg í körfur. Allt á sínum stað. Ég er búin að hreinsa út úr öllum skápum, henda drasli og senda í endurvinnslu. Ég er að vona að svona tiltekt, uppfæring og röð og regla sé það sem ég þarf til að koma afgangnum af sjálfri mér í röð og reglu. Mig langar svo til að vera aftur skipulögð og með eld í maganum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

oohh já ikea er snilld. Viðhengið mitt vill meina að það væri næstum hægt að mynda íbúðina okkar fyrir ikea bæklinginn ;)

líst vel á þessa "tiltekt" þína. kannski ég prófi að fara að fordæmi þínu. Amk myndi íbúðin og skipulagsleysið sem þar ríkir núna ekki sóma sér vel í ikea bæklingi ...

- Ásta

barattan.wordpress.com