fimmtudagur, 12. apríl 2012

Ég sat hér í gærkveldi og gúgglaði eins og mófó. Hitt og þetta, mest megnis spurningar sem vakna hjá mér yfir daginn um holla lifnaðarhætti. Og ég rak mig á umræðu á "Runner´s World" þar sem það var varað við því að hlaupa á tómum maga. Að það að hlaupa á tómum maga væri ekki til að maður léttist heldur yrði það til þess að maður gengi á vöðvaforða frekar en fituforða. Og ég byrja að panikka. "Ég er að gera allt vitlaust, ekki nema von ég sé ekki að léttast, ó nei, ó nei, ó nei!"

En svo fór ég að spá í þessu. Málið er að ég hleyp oftast rétt um fimm leytið á morgnana. Ég brölti fram úr, bursta tennur og pissa og fer út. Ég hef hvorki tíma til né áhuga á að borða þá. Ég fæ mér staðgóðan morgunverð eftir hlaup. Á ég núna að hætta að hlaupa á eina tíma dagsins sem hentar mér vegna þess að vísindin segja að ég léttist ekki við það? Hvort er skárra að ég hlaupi þegar mér hentar af ástæðunni "ég hef gaman af því" eða ég hætti að hlaupa vegna þess að ég hef svo miklar áhyggjur af því að ég sé ekki að gera eins og vísindin segja?

Mér datt svo í hug öll þessi umræða um hvað maður á og á ekki að gera í líkamsrækt. Maður á að gera tabata og lyfta og bara hlaupa ef maður hleypur hratt og maður á að gera hitt og maður á að gera þetta. Ég stend sjálfa mig að því að fá samviskubit  þegar ég tek langt, rólegt hlaup. Samviskubit. Yfir því að hlaupa! Málið er að hvað öllum reglunum líður þá hlýtur alltaf að vera betra að gera eitthvað en ekki neitt. Í alvörunni. Hvað er ég eiginlega að nenna að gúgla þessu öllu saman? Ef ég ætla að vera hraust, hamingjusöm og halda áfram að minnka á mínum forsendum þá skiptir ekkert máli nema að gera það sem mér hentar. Eða eins og Jillian Michaels segir;"Count your calories, work out when you can, and try to be good to yourself. All the rest is bullshit." Gott. Einfalt.

Engin ummæli: