þriðjudagur, 10. apríl 2012

Nýja dagbókin (já ég hugsa allt of mikið á ensku)
Það er ekkert leyndarmál að ég er búin að vera á smá ráfi að undanförnu. Sem betur fer ráfa ég nú samt aldrei of langt frá heilsunni og því sem ég hef lofað mínu æðra sjálfi. Með smá tilfæringum er ég aftur komin af stað. Ég eyddi heillöngum tíma á mánudaginn í "Plan". Náði mér í nýja vasabók, skoðaði hvernig vinnuvikan og móðurskyldur og ritgerðarsmíð litu út yfir vikuna og sneið æfingaplan og matarplan í kringum það. Ég fann það á laugardaginn þegar ég var úti að hlaupa að ég er farin að þyngjast örlítið og mér líkar það illa vegna þess að mér finnst ekkert jafn yndislegt og "hreystistilfinning" sem ég finn þegar ég er í góðu formi. Ég elska það að vera sterk og stinn. Og það þarf að vinna vinnuna sína til að fá að uppskera þá tilfinningu. Ég setti sjálfri mér þessvegna fjórar æfingar á viku sem eru "non-negotiable", þeas ég hef ekki val um hvort eða hvenær þær eru framkvæmdar. Þær eru inni í stundatöflunni jafn fastar og vinnutíminn og krútttími með Lúkasi. Ég meira að segja setti það niður á blað til að það færi ekki á milli mála. Og ég gat því ekki um skorist í morgun.

Veðrið hér í Bretlandi er jafn ófyrirsjáanlegt og á Íslandi og þó í síðustu viku hafi ég spókað mig um á hlírabol í tuttugu stiga hita þá er aftur komið hrollkalt haust núna. Þannig að þegar vekjaraklukkan hringdi klukkan fimm í morgun og vindurinn lamdi regni og trjágreinum í gluggann hjá mér í svartamyrkri varð ég voðalega glöð að ég hafi sett "án samningarétts" klausuna á þetta hjá mér. Það var ekki undan komist þó bólið hafi verið ósköp notalegt.Ég veit nefnilega hvað mér finnst gaman að hlaupa í myrkri og rigningu. Mér finnst ég vera svo svaðalegur nagli þegar ég geri það. Ég veit nefnilega líka hvað mér líður vel þegar ég hleyp. Ég verð alltaf jafn hissa og glöð yfir því að geta það. Og ég veit líka hvað ég liður vel þegar ég er búin. Tilhugsunin um að sitja í sjö klukkutíma á rassgatinu fyrir framan tölvu verður mun bærilegri þegar ég veit að ég er búin að leggja inn sjö kílómetra með sprettæfingum. Og það er sko á hreinu að eina æfingin sem maður sér eftir er sú sem maður gerði ekki.




Engin ummæli: