laugardagur, 7. apríl 2012

Hvatningar kúrfan (Heimild)
Það virðist sem það sé heilmikil list falin í því að taka sér pásu. Án þess að líða eins og ég sé vond manneskja eða léleg. Ég er að reyna að sanna fyrir sjálfri mér að ég sé ekki búin að klúðra þessu öllu ef ég hleyp ekki í nokkra daga. Það hefur reynst þrautinni þyngri. En málið er að ég er smávegis útbrennd og mig vantar að hlaða batteríin á annan hátt en að fara út að hlaupa og ég ætti að geta leyft mér það án þess að lamast úr samviskubiti. Það sem angrar mig er hversu fljót ég er að setja veiðileyfi á Cadbury´s deildina í Kaupfélaginu um leið og ég slaka á í hreyfingunni. Hversu lélegar ákvarðanir hvað varðar mat ég hef tekið að undanförnu. Súper lélegar.


Málið er að það er óhjákvæmilegt á svona langri leið að maður komi ekki að tímabilum þar sem afturför er allsráðandi. Það er bara eðlilegt. Það sem skiptir máli er hvernig maður tekur á því. Fólk sem nær árangri notar svona tímabil sem hvatningu til að endurvekja áhugann og til að fínpússa markmiðin. Það sem maður þarf að gera er að finna það sem olli stoppinu og reyna að nota það til að læra af því. Til dæmis að nota það sem tækifæri til að breyta planinu. Og það ætti að vera til þess að skerpa einbeitninguna og koma manni aftur í gang. Þetta er munurinn á að gefast bara upp ef maður étur aðeins of mikið í eina máltíð eða sleppir nokkrum æfingum og hellir sér þá bara aftur út í fjölskyldustærð af KFC og líter af Ben og Jerry í morgunmat og á okkur sem þurrkum súkkulaðið af hökunni og höldum svo bara áfram. 


Það sem ég get ekki séð út núna er hvort þetta er tímabundið "setback" eða hvort ég sé að slaka of mikið á. Ég finn einhvern veginn ekki milliveginn á að hugsa með mér að ég sé í gallabuxum númer 14, get hlaupið 10 km og klifrað efst upp í klifurgrindina á róló og er þessvegna bara fín og get alveg tekið pásu frá hollum lifnaðarháttum og byrjað svo bara aftur, og því að langa til að halda áfram að léttast og fara í stresskast þegar ég tek svona pásu vegna þess að hungrið inni í mér er óseðjandi.


Þarf ég kannski að endurmeta markmiðin mín? Hversu mikið vil ég ná þeim? Má vera að ég sé kannski bara búin að missa áhugann á að léttast? Ég er búin að ná mér niður í nokkuð lifanlega stærð. Ég er líka búin að ná að hlaupa 10 km. Ég las einhverstaðar að ef markmiðin hafa litla merkingu fyrir manni eða eru manni ekki mikilvæg þá er auðvelt að tapa áhuganum. Elemental myndi ég segja. Kannski er það að léttast bara ekki mikilvægt fyrir mig á þessum tímapunkti. Akkúrat núna þarf ég að einbeita mér að vinnunni og náminu. Ég á eina ritgerð eftir í Masterinn. Eina. Og ég er svoooooona nálægt alvöru stöðuhækkun í vinnunni. Kannski er bara eðlilegt að ég sé að einbeita mér að því. Það sem angrar mig aðeins hér að að ég geti ekki unnið að stöðuhækkun OG haldið áfram að afþakka kex í tíu kaffinu. 


Ég ætla því að taka þessu öllu hálfan dag í einu. Stundum er bara of mikið að horfa á allt sem þarf að gera í einu. Stundum er þetta allt saman bara manni ofviða. Þannig að ég ætla að taka daginn frá átta til tólf og gera mitt besta í öllum þáttum lífsins. Svo reyni ég bara að gera mitt besta til að halda áfram að gera mitt besta. Akkúrat núna virðist þetta vera málið. Stressið í vinnunni, í náminu, í lífstílnum, allt er að verða of mikið fyrir mig. En það er hægt að gera sitt besta hálfan dag í einu. 

Það hefur alltaf reynst mér vel að einfalda hlutina. Ég á það til að laðast að öfgum og ég skal alveg viðurkenna að á mínum dimmu og dökku stundum, í rökkurtímanum mínum, þegar ég er búin að eyða heilum degi í slæmar ákvarðanir þá byrja hugsanirnar sem segja að ég þurfi að; "hætta ÖLLU", kaupa mér svitagalla, fasta, hlaupa meira, éta ekki neitt, refsa, refsa, refsa. En það eru einföldu lausnirnar sem virka. Í staðinn fyrir að horfa á Grey´s Anatomy, skrifa 500 orð. Í staðinn fyrir smjör og ost á þýska brauðið, nota bara ostinn. Þessar litlu breytingar eru varanlegar og vænlegar til árangurs. Ég á þetta alltof mikið til, ætla að hætta ÖLLU á mánudaginn. Þegar ég veit að það sem virkar eru litlu hlutirnir. 


Rannsóknir sýna að það að taka ákveðið skref fram á við, í átt að markmiðinu, hversu lítið sem það er gefur manni ástæðu og hvatningu til að taka það næsta.Ég ætla að nota trix úr sjálfhjálpardeildinni. Ég hef í hyggju að skrifa niður hvað það er sem er að halda aftur af mér núna og hvað ég tel að myndi hjálpa mér til að taka skref í átt að markmiðunum en ekki frá þeim. Meira að segja ef lausnin er að breyta þessum markmiðum. Svo ætla ég að skoða listann og gera eitthvað af honum. Breyta einni hugsun í verk. Sjá svo til hvort það komi mér af stað. 


Hugsun í verk. Þetta líkar mér. 

2 ummæli:

Erla sagði...

"Ég á þetta alltof mikið til, ætla að hætta ÖLLU á mánudaginn"

Ég held að þessi setning súmmeri upp af hverju ég elska bloggið þitt. Ég kannast svo við þetta og ég held að margar gerir það en það sem er svo uppörvandi við bloggið þitt er að þó að þig langi til að brjótast inn í Nóa-Sírus verksmiðjuna og baða þig upp úr súkkulaðinu (og réttlætir súkkulaðibaðið með heraganum sem beitt verður á mánudaginni) þá heldur þú alltaf áfram og minnir okkar lesendur á að einbeita okkur að litlu skrefunum.

Það er líka yndislegt fyrir fólk eins og mig sem hefur í mörg bisað við að lifa heilbrigðu líferni og fundist það mjög erfitt á köflum að lesa um einhvern annan sem á í sömu vandræðum með að hemja sykurpúkann.

murta sagði...

Það er rosalegur stuðningur í því að finna að maður er ekki einn. Þakka þér fyrir xx