sunnudagur, 8. apríl 2012

Páskadagsmorgun og eggjaleitinni lokið hér á heimilinu. Lúkas Þorlákur búinn að finna þrjú egg í mismunandi stærðum, tvö bresk og eitt íslenskt. Ég beið aðeins eftir að rigning breyttist úr slagveðri og í léttan úða áður en ég fór út að hlaupa. Ég hef ekki hlaupið í viku núna. Það er komið gott af pásu. Og enn og aftur kemur í ljós að ég gef sjálfri mér ekki nægilega mikið credit. Ég sá fyrir mér að eftir viku pásu myndi ég vera komin á byrjunarreit aftur, myndi sjálfsagt þurfa að byrja á byrjun á 5km prógramminu. En ég fór út og hljóp 4.3 km á 30 mínútum án þess að stoppa. Ég var hissa allan tímann. Ég skil ekki afhverju ég held alltaf að ég missi allt þol ef ég slaka svona á í nokkra daga. Ég skil ekki afhverju eftir allan þennan tíma held ég enn að ég sé veikur og stjórnlaus ræfill. Ég ákvað í huganum að ef ég færi 4 km á hálftíma þá myndi ég kalla þetta hlaup númer fjögur í 12 á 12 og skýra það "Með hausinn í lagi" hlaupið. Og það gekk eftir, ég náði því sem ég setti mér og get núna haldið áfram að gera mitt besta fram að hádegi.

Þar með breytti ég hugsun í verk. Ég ætla líka að sjá hvort ég sleppi ekki að stela mola frá Láka allavega þangað til eftir lamb. Mig langar ekki að skemma fyrir mér hádegismatinn með hugsunarlausu súkkulaðimauli. Ef ég fæ mér mola þá ætla ég að búa mér til kaffi, setjast niður í þægilegt sæti og smjatta á honum með gleðilátum. Og halda svo bara áfram. Sko, tvær hugsanir orðnar að verki í dag. Er ekki kominn rífandi gangur á þetta?

Engin ummæli: