Það var alveg mega lélegt hlaupið mitt í dag. Prógrammið sagði 45 mínútna þægilegt hlaup og ég festi hausinn eitthvað of mikið í "þægilega" gírnum og hljóp eitthvað minna en ella og labbaði aðeins of mikið. Ég ætlaði eitthvað smávegis að skamma sjálfa mig fyrir en svo datt mér í hug að það er jú, samkvæmt minni eigin heimspeki betra að gera eitthvað en ekki neitt, og í ofan á lag þá kemur dagur eftir þennan og ég get alveg reynt aftur á morgun. Ég var bara eitthvað annars hugar í dag. Enda mamma og pabbi að koma í heimsókn og ég farin að hlakka all svaðalega til. Það er alltaf svo gaman að fá þau hingað, við gerum alltaf eitthvað skemmtilegt fyrir utan að mér finnst einfaldlega alltaf best að vera í millinu hjá þeim. Það hefur bara ekkert elst af mér.
Það er líka alltaf gaman að fá sendingar frá Íslandi. Ég man þegar ég flutti hingað fyrst þá var listinn langur; allskonar súkkulaði, Lindu buff, flatkökur og normal brauð, puslusinnep, remúlaði og sveppasmurostur, harðfiskur og söl, SS pulsur, hangikjöt og súpujurtir, krossgátur... núna er listinn eiginlega bara harðfiskur. Lakkrís og söl ef fólk nennir en ekkert nauðsynlegt. Harðfiskurinn er það eina sem ég get bara ekki lifað án. Enda held ég að það finnist ekki betri heilsuvara en harðfiskur. Ætli þetta þýði að ég sé minni Íslendingur orðinn? Ég veit að ég er meira pirruð á Íslendingum núna en ég var, ég á miklu auðveldara með að sjá það sem er að í fari okkar Íslendinga en ég gerði áður. Hversu hrokafull við erum en eigum sjaldnast inni fyrir því. Hversu hjákátleg hún er þessi sannfæring okkar um að við séum miðja alheimsins. Hversu rangt við höfum fyrir okkur þegar við segjumst vera heimsborgarar. Hversu mikill misskilningur það er að við vinnum mikið og langan vinnudag á miðað við aðrar þjóðir. Ég verð stundum voðalega pirruð.
En svo man ég eftir harðfiski og hætti að vera pirruð. Mikið sem harðfiskur er góður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli