sunnudagur, 22. apríl 2012

"Every line crossed, every mission accomplished" stendur á hliðinu sem maður fer í gegnum þegar maður kemur í mark í London Maraþoninu í ár. Ég er að horfa á allskonar fólk koma í mark eftir að hlaupa af allskonar ástæðum og á allskonar tíma. Það hlýtur að vera ótrúleg tilfinning að komast í það mark. Ég finn ekki neina sérstaklega löngun til að taka þátt, ég finn það að ég er búin að "fara yfir mína línu" með að hlaupa 10 km. Það var einhvern veginn nóg fyrir mig til að sanna fyrir sjálfri mér hversu langt ég hef náð. Og þó ég haldi áfram að bæta við mig, reyni að hlaupa hraðar og haldi áfram að skora á sjálfa mig með að reyna við nýjar áskoranir (ég ÆTLA að klífa vegg einn þessara daga) þá þarf ég ekki á því að halda að sanna neitt. Engu að síður þá var voða gaman að hlaupa í morgun, með hugann við fólkið í London. Ég fór rétt tæpa 8 km með nokkrum valhoppum á meðan fólkið frá Kenýa fer 42 km á tveimur tímum. Enginn munur.

Ég er búin að léttast heilmikið þessa viku. Það hefur komið svona nokkuð náttúrulega; ég hef misst áhugann á mat. Ég geri mér engar gyllivonir um að það endist eitthvað, ég get ekki ímyndað mér annað en að ég verði byrjuð að skoða uppskriftir, prófa, hanna, hugsa um og elda mat innan skamms. En ef satt skal segja þá er ég himinlifandi. Ég vakna á morgnana, hendi samloku og jógúrtdós í nestisboxið mitt og fer í vinnuna. Svo borða ég það þegar ég verð svöng. Þegar ég kem heim á kvöldin elda ég það sem er til, og borða þangað til ég er södd. Ég ímynda mér að svona lifi venjulegt fólk. Þetta er voðalega skrýtið. Hingað til hef ég þurft að plana allt. Og það að plana sex máltíðir á dag þýðir að ég er stanslaust hugsandi um mat. Ég hef alltaf haldið að það að plana ekki myndi þýða að ég myndi bara éta allt sem tönn á festir, að ég myndi láta undan óseðjandi hungrinu mínu. En það virðist sem svo að ég sé ekki botnlaus. Ég er loksins orðin södd. Og ég hef ekki hugmynd um af hverju. Ef satt skal segja þá langar mig ekki til að rannsaka. Ég vil bara njóta á meðan varir. Sem þýðir lélegt blogg, en góð Svava Rán.

2 ummæli:

Guðrún sagði...

Góð Svava Rán og dásamlegt blogg.

Nafnlaus sagði...

Þú ert stórglæsileg frænka. Njóttu augnabliksins og veistu, ég var einu sinni ofur sátt við að geta hlaupið 10K og dreymdi aldrei um neitt meira. Í dag hef ég hlaupið 6 maraþon og eitt ofur maraþon og er að fara að hefja undirbúning undir næsta ofur maraþon. Svona er þetta bara, eitt skref í einu og njóttu þess að lifa í núinu ;-) Knús frá frænkunni í Boston ;-)