sunnudagur, 28. október 2012

Ég fer ekki ofan af því að Október haldi nafngiftinni ofur þrátt fyrir sérlega værð í þessari viku. Meira en værð, ég hef ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Ég ætlaði að ljúga mig út úr þessu, bera við stressi og löngum vinnudegi í samblandi við hnjask og meiðsl en ákvað svo að sannleikurinn væri sagna bestur. Ég bara nennti ekki að gera neitt. Mig langar ekki til að vakna á morgnana og á kvöldin þegar heim er komið ströggla ég við að elda hollt, langar bara til að fá brauð. Ég hef einhvern vegin ekkert um þetta að segja, svona er þetta bara núna. Ekki vont, ekki gott. Bara ekkert.

Ég er eins og Rauða Drottingin úr Through the Looking Glass eftir Lewis Carroll, hún hljóp og hljóp til þess eins að standa í stað enda hreyfðist umhverfið með henni. Ef ég stoppa þá fer ég aftur á bak, þegar ég held áfram að hlaupa þá stend ég í stað.

Stundum þarf maður bara að stoppa, hlaða batteríin og skoða umhverfið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert dugleg ekki gleyma því eða reyna að telja þér trú um annað. Það er annað fólk eins og ég sem dáist að þér fyrir eljuna og skynsamar ákvarðanir.

kv. Erla Guðrún