laugardagur, 20. október 2012

Ég hef gífurlegt álit á sjálfri mér. Hef alltaf haft. Og ég hef sjálfstraust fyrir tvær manneskjur. Hef aldrei efast um eigið ágæti. En það eru líka fullt af hlutum við sjálfa mig sem mér finnast alveg hrikalegir. Ég hef hinsvegar alltaf  kosið að hunsa vankanta mína og ýkja það sem mér finnst svona fínt hjá mér. Mér þótti bara óþarfi að vera eitthvað að ræða hvað ég var feit þegar ég var svona ægilega skemmtileg. Eða gáfuð. Eða með fágaðan tónlistarsmekk. Eða hvað svo sem ég taldi til afreka.

Það er svo smávegis að renna upp fyrir mér núna að ég á í heljarinnar vandræðum núna að samræma þetta tvennt. Það er að segja þá trú mína að ég sé bara alveg hreint ljómandi góð manneskja og að það sé líka ýmislegt sem má betur fara. Ég rugla svo saman sjálfstrausti og sjálfsvirðingu eða sjálfssamhyggð. (Compassion) Það að ég sé sjálfstraust þýði að ég geti bara haldið áfram að sópa undir teppið þessu sem ég vil ekki taka á. Þvi ef ég segi satt frá þá lendi ég alltaf í klandri þegar ég tek fram það sem ég vil bæta í sjálfri mér. Ég verð svo vond við sjálfa mig. Kalla mig öllum illum nöfnum. Engu að síður hef ég komist að því að neikvæð "re-inforcement" hefur ekki góð áhrif á mig. Þannig er tilgangslaust fyrir mig að horfa á feitar myndir af sjálfri mér. Ég fyllist ekki "aldrei aftur" fílingnum, ég fyllist bara sorg og vanmætti og er mun líklegri til að teygja mig í snickersið í þeirri trú að ég sé bara svona. Þetta sé eins og ég komi alltaf til með að vera. En ef ég skoða myndir af mjóu Svövu Rán verð ég ægilega kát og er mun líklegri til að vilja fá mér salat og taka eina æfingu.

Ég er núna búin að setja þetta allt í samhengi. Ég hef alltaf skammast mín fyrir bestíuna, fyrir átvaglið, fyrir þetta stjórnleysi inni í mér. Og í stað þess að sýna sjálfri mér samhyggð og virðingu og viðurkenna fyrir mér og öðrum að það séu þættir í sjálfri mér sem ég geti unnið að og bætt og að ég geti bætt þá án þess að kvelja sjálfa mig, þá einbeitti ég mér bara að því sem vel fór og hunsaði bestíuhegðunina.

Þessvegna er þetta erfitt núna. Ég set sjálfa mig svo í mikla vörn þegar ég reyni að tækla bestíuna. Skömmin og samviskubitið er svo rótgróið að ég get ekki komið þessu í jákvætt re-enforcement. Ég finn enga leið til að sýna sjálfri mér samhyggð og velvild þegar mér mistekst. Mér finnst eins og það að mistakast sé svo mikill ljóður á ráði mínu eða persónuleikabrestur.

Í þessari viku er ég búin að léttast heilmikið. En á sama tíma hef ég nánast ekkert þjálfað. Mig bara hefur ekki langað til þess. Ég er enn að venjast lífi án hlaupa og finn mig bara ekki alveg. Og það er búið að vera svakalegt verkefni í vikunni að byrja ekki að rífa sjálfa mig niður. Ég þarf að rífast við sjálfa mig á hverjum degi til að minna mig á að það að sleppa æfingu einn og einn dag - eða jafnvel í lengri tíma - þýðir ekki að ég sé lúser og failure og ömurleg. Það þýði bara að mig vanti pásu, og að ég byrji svo bara aftur þegar ég er tilbúin.

Það er ótrúlegt hvað þessi skammartilfinning er föst inni í manni. Jafn föst og helvítis spekið!

Engin ummæli: