sunnudagur, 21. október 2012

Í nokkur ár núna hef ég fylgst af ákafa með Strictly Come Dancing á BBC 1 á laugardagskvöldum. Maður bíður spenntur allt árið eftir að ný sería byrji, hvaða fræga (eða því sem næst) fólk taki þátt keppninni, hvaða ástarsambönd blómstri, búningum, glansinu og glitrinu öllu. Í hverri seríu hefur svo verið eitt svona djók. Fræg manneskja sem getur ekki dansað til að bjarga lífi sínu en áhorfendur heima halda áfram að kjósa viku eftir viku til að sjá brandarann iða um á dansgólfinu. Frægastur var John Sargeant, fréttamaður á sjötugsaldri, sem dró dansfélaga sinn eftir gólfinu í frægum paso doble. Hann var svo vinsæll á meðal breska almennings að hann endaði á að draga sig úr keppni af ótta við að vinna og honum þótti það óréttlátt gagnvart öðrum keppendum sem gátu í alvörunni dansað.
John Sargeant og Kristina Rihanoff í ham.

Ann Widdecombe er fyrrverandi þingmaður og matróna mikil sem er orðin svona brandari hér í Bretlandi og ekki síður eftir þáttöku sína í Strictly. Viku eftir viku kaus almenningur að halda henni í keppninni til að hlæja dátt að ósköpunum á dansgólfinu laugardagskvöld eftir laugardagskvöld.
Widdecombe og Anton Du Bek í fljúgandi gír.
Í ár var svo mikill titringur í blöðum og á samfélagsmiðlum þegar line-upið var tilkynnt og í ljós kom að Lisa Riley var ein af keppendum. Lisa er sápu leikkona, helst fræg fyrir að vera í Emmerdale og svo í Fat Friends. Hún er feit. Öfugt við Sargeant og Widdecombe er hún ung en hún er líka feitari en þau bæði.
Ég varð reið um leið og ég heyrði af þáttöku hennar í keppninni. Fyrst varð ég reið vegna þess að ég get ekki hugsað mér að horfa á almenning hlæja að hlussunni hlussast um dansgólfið í ýktum hreyfingum meðan dansfélaginn fettir sig og grettir til að leggja áherslu á hversu grótesk sýningin er. Svo varð ég reið yfir því að almenningur hlæji að feitu fólki. Það er EKKERT fyndið við að vera feitur. Það er bara sorglegt. Svo varð ég reið út í hana fyrir að svíkja feitt fólk svona. Hvernig dirfðist hún að gera okkur að aðhlátursefni? Hvernig dirfðist hún að viðhalda þessari hugmynd um að við séum rétthlæjanleg? Svo varð ég reið út í hana fyrir að vera svona feit. Afhverju að gera sjálfri sér þetta? AFHVERJU GERIR HÚN EKKI EITTHVAÐ Í SÍNUM MÁLUM!!! Mig langar til að hrista ykkur öll. LEGGÐU FRÁ ÞÉR KÖKUNA OG DRULLASTU TIL AÐ HREYFA ÞIG!!!!
Lisa Riley i daglega lífinu.


Þegar fyrsti þátturinn var svo í sjónvarpinu sat ég og úaði og aaði yfir öllum búningum, tónlistinni og dansinum. Svo var komið að Lísu og Robin. Við fyrsta skref byrjaði ég að gráta. Og ég grét allan tímann sem dansinn stóð yfir. Hún var stórkostleg. Þau dönsuðu tjatjatja og hún var léttfætt, snögg, taktviss, sexý. Svo flott. Og ég grét og grét. Yfir fordómunum í mér. Yfir því að hafa ekki trú á henni og á mér. Yfir því að enn og aftur verið föst í hugarfarinu sem segir að maður þurfi að vera grannur til að geta gert eitthvað. Yfir því að vera svona mikil tík. Hvernig dirfist ég að ákveða hvað er gott fyrir fólk? Hvað er heilbrigt og hvað skapar hamingju?
Lisa Riley og Robin Windsor á fullu fútti við tjatjatja.
Ég ætla ekki að skafa ofan af því að ég myndi samt telja að það er betra fyrir heilsuna að vera grennri en Lisa er núna. Og ég er nokkuð viss um að hún myndi vera enn betri dansari en hún er núna ef hún væri grennri. Þó ekki nema til að gera það auðveldara fyrir dansfélaga hennar að ná utan um hana.
Lisa og Robin í vals.
En hrokinn í mér að gera ráð fyrir að hún yrði djókið og hrokinn í mér að ákveða að ég, sem fitubolla, myndi þurfa að skammast mín fyrir hana er forkastanlegur. Lisa Riley er að gera það sem ég stanslaust prédika; hún er að taka lífið af 100% krafti, algjörlega viðstödd í hverju andartaki. Ég ætti að taka hana mér til fyrirmyndar.

Engin ummæli: