sunnudagur, 21. október 2012

Laugardagskvöld - Sunnudagur

Ég eldaði loksins "Meatza" á laugardagskvöldið. Ég sá þetta fyrirbæri fyrst á bloggi fyrir nokkrum árum og er búin að vera á leiðinni að elda síðan. Svo núna í vikunni er ég búin að vera að hella mér meira og meira út i paleo mataræði sem þýðir að pizza er út. Nigella Lawson kom svo með útgáfu af þessu í nýjasta þættinum síá hinum og ég sá að það er tími til kominn að prófa. Þetta var instant hit á heimilinu. Kjötið kemur semsé í stað pizzubotnsins. Rosalega djúsí og frábært að kjamsa á yfir laugardagskvöldsjónvarpinu.  

Hvað hreyfingu varðar var ósköp lítið í gangi þessa vikuna. Smá lyftingar á mánudag og laugardag. Ég léttist engu að síður um 2 kíló og líður rosalega vel í líkamanum. Ég er enn og aftur að finna þetta jafnvægi á milli þess að njóta andartaksins, vera hraust, stjórna fíkninni og vera hamingjusöm. Fín lína en mamma mía! Ég skal finna hana!

Í dag var veðrið svo óvenjufallegt; ekta skínandi haustveður.  Smá kalt en sól og bjart. Við ákváðum að fara í menninguna til Chester og stússast aðeins. Byrjuðum á rómverska safninu. Chester var stórborg á tímum Rómverja í Bretlandi og hér eru margar minjar eftir þá. Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að ganga dag hvern eftir Via Prætoría vitandi að fyrir tvöþúsund árum síðan var fólk á þessum sama stað að ganga eftir götunni í svipuðum erindagjörðum og ég. 

Chester hét Dewa á tímum Rómverja og eins og sjá má þá þóttu  Keltarnir sem bjuggu handan við landamærin í  Norður-Wales klénn pappír. Enda villimenn og barbarar upp til hópa. Það er eins og lítið hafi breyst. 

Safnið er bráðskemmtilegt fyrir krakka þar sem að það er búið að gera leiksvæði fyrir þau þar sem maður getur sett sig í spor Rómverja. 

Skemmtilegt fyrir krakka. Og kjéllingar.

Lúkasi þótti mikið til brynjunnar koma. 
Þegar út af safninu er komið er maður aftur komin í Tudor-tímabilið sem  er  ríkjandi byggirngarstíllinn í borginni.  Við röltum í gegnum miðborgina og skoðuðum fólk og byggingar. 

Frá Rómverjum, Hinrik VIII, Elisabetu I og Viktoríu  lá svo leiðin á Bellyfull, karabískan veitingstað í miðborginni til að fá okkur saltfiskbollur og lambakássu í hádegismat. Ljómandi skemmtilegur staður en kannski heldur dýr fyrir gæði. 


Frá Karabíska hafinu lá svo leiðin til Austuríkis til að fá okkur kaffi og hnallþóru á Patisserie Valerie. Fínasta skemmtun að sitja á meðal eldri borgara og háma í sig rjómahlussu sem voru svo fínar að móðursystur mínar hefðu getað bakað. Eftir að hafa séð, skoðað, þreifað, þefað og étið okkur í gegnum aldirnar og heimsálfurnar lá svo leiðin aftur heim til Wrexham. Home Sweet Home eh?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl,
Les stundum bloggið þitt og finnst áhugavert að sjá tilraunaeldamennskuna hjá þér. Eg rak augun í orðin "pizza út" í tengslum við paleo en ég mæli með því að þú googlir coliflower pizza crust... Mæli með því að þú prófir - himneskt, glútenfrítt, kolvetnalaust og allir kátir.
Kv. selma

murta sagði...

Blómkálspizzan er gömul klassík á þessu heimili - hún er á uppskriftasíðunni :)