þriðjudagur, 9. október 2012Lúkas er að læra um Viktoríutímabilið í skólanum. Í heimanámi erum við svo búin að gúggla Viktoríu drottingu, fara út að skoða Viktoríanskan byggingstíl í þorpinu og um daginn kom hann heim úr skólanum og sagði okkur allt um William Morris. Sá var listamaður sem hannaði veggfóður og steinda glugga og var einn aðaláhrifavaldur Tolkiens um norræn áhrif á Hringadróttinssögu. Morris þessi ferðaðist til Íslands um miðbik 19. aldar og var mikið hrifinn af landinu. Ég var svo hrifin af öllu sem barnið hafði að segja að ég fletti Morris upp á wiki og komst að því að allt var þetta rétt og satt. En ég rakst líka á þessa tilvitnun: 

"The true secret of happiness lies in taking a genuine interest in all the details of daily life." — William Morris


Mér finnst þetta vera svo mikill sannleikur. Ég held að ég flæki hlutina oft allt of mikið fyrir sjálfri mér. Í staðinn fyrir að taka bara þátt í andartakinu er ég alltaf að bíða eftir því næsta. Þannig er ég að flækja hlutina fyrir sjálfri mér núna. Ég er að ríghalda í gamla hegðun, skoðanir og trú sem ég í raun og veru er ekki að fylgja lengur. Þannig tala ég um gömlu Svövu Rán og nýju Svövu Rán. Og ég á það mikið til að segja að gamla Svava Rán sé mér mikið eðlisægari en sú nýja, hún hafi ráðið ríkjum mun lengur en þessi sem hefur valið heilbrigðari kostinn. Og svo koma svona dagar þar sem ég bara rista hverja brauðsneiðina á fætur annarri, kaupi kexpakka og borða hann allan, drekk gos og hreyfi mig lítið sem ekkert. Og ég útskýri þetta fyrir sjálfri mér með því að auðvitað komi dagar þar sem ég ruglist svona; ég sé svo miklu vanari að borða eins og bestía en að gera það ekki. En í dag rann upp fyrir mér ljós. Mér er orðið miklu eðlislægara að velja rétta kostinn. Ég hreyfi mig lítið, en ég hreyfi mig samt. Ég vel að borða heilan kexpakka en ég fékk mér hafragraut í morgunmat. Og mér líður illa þegar ég borða svona. Líkamlega og andlega. Ég held að ég sé að halda í eitthvað gamalt sem ég þarf bara að kötta á. Svona eins og rotið ástarsamband sem fólk hangir í vegna barnanna. Eða gömul föt sem maður geymir inni í skáp svona "just in case". En það er bara kominn tími til að segja bless við gömlu Svövu Rán og halda áfram. Ég gæti eytt áratugum í þetta núna, haldið áfram að fokka svona fram og tilbaka og aldrei komist neitt áleiðis. En ef ég er bara að ríghalda svona í gamla siði og venjur af því að ég er hrædd við að umfaðma alveg nýju Svövu Rán þá held ég að ég sé að svindla á sjálfri mér. Ég held að ég sé þá að hafa af sjálfri mér ánægjuna sem ég gæti haft út úr daglega lífinu. 


Ég skil ekki hvað ég er hrædd við. Það er ekki eins og að kveðja gömlu Svövu Rán sé ógnvekjandi. Ég er búin með þann pakka. Það er bara ekkert að óttast. Ég veit hvað ég fæ mikið út úr því að lyfta þungu, hlaupa hratt og hoppa hátt. Ég veit hvað ég fæ mikið út úr því að kaupa þröngar buxur og litla kjóla. Ég veit að ég fæ meira út úr því en að japla á kexi.

Vandamálið er að ég er bara ekki viss um hvernig ég ætla að fara að því að segja henni upp. "Getum við ekki bara verið vinir?" ??


2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Verð bara að segja TAKK fyrir þennan póst. Í gær kom ég heim úr vinnu kl. 20.30, skellti kjúklingi og grjónum í andlitið sem eiginmaðurinn hafði eldað og fór svo að hugsa að ég ætti nú skilið að fá mér eitthvað gott í eftirmat þar sem ég var svo lengi í vinnu og ég væri svo þreytt.

Þá hugsaði ég um þetta blogg þitt, sér í lagi þennan hluta:

" Ég veit hvað ég fæ mikið út úr því að lyfta þungu, hlaupa hratt og hoppa hátt. Ég veit hvað ég fæ mikið út úr því að kaupa þröngar buxur og litla kjóla. Ég veit að ég fæ meira út úr því en að japla á kexi."

Þannig að Oreo pakkinn fékk að hvíla sig uppi í skáp á meðan kroppurinn fékk sér vatnssopa og var bara nokkuð sáttur við það.

Svo takk takk takk

murta sagði...

Mín var ánægjan babe! :)