föstudagur, 30. nóvember 2012

Ég er búin að glutra hverju einasta spikpriki dagsins úr höndunum á mér. Og það fyrir helbert hugsunarleysi, akkúrat það sem ég var að reyna að forðast! Til að byrja daginn þá svaf ég aðeins of lengi til að geta skoppað. Sleppti því sem sagt alveg. Ég fór svo með konfektkassa í vinnuna í dag, það er svona smávegis "ætlast" til þess að stjórinn geri vel við starfsfólkið á aðventunni og ég lét undan þrýstingi (hvort sem hann var raunverulegur eða hugarburður minn) og keypti Roses dós og gaf teyminu. Svo áður en ég vissi af var búið að rétta mér kaffibolla og ég er að stinga upp í mig mola númer tvö í miðri sögu um íslenska jólasveina áður en ég fatta hvað ég var að gera. Sjift! hugsaði ég og kyngdi. Sagði svo við sjálfa mig að þetta væri nú varla heimsendir, ég tapa fimm spikprikum og held svo bara áfram mínu striki. Og það gekk ljómandi vel. Í uþb hálftíma. Þegar heilinn í mér byrjaði röksemdarfærsluna sem byrjaði á "þú ert hvort eð er búin að fá þér tvo mola þannig að þú getur alveg fengið þér fleiri" og endaði einhvernvegin í ósköpunum á því að "og svo passar akkúrat að stoppa við í Thornton´s og kaupa súkkulaðihúðaðar karamellur á leiðinni í Marks til að ná í hálft dúsín af möndlucroissant" vissi ég að ég var komin í klandur.

Ég gerði ekkert af þessu en ákvað samt að taka af mér öll spikprik. Fyrir syndsamlegar hugsanir, græðgi, öfundsýki og ólæti á almannafæri á aðventunni. Ég er að reyna að kenna sjálfri mér eitthvað hérna og það lærist ekkert ef maður verðlaunar sig stanslaust fyrir ekki neitt.

0 spikprik. Nú verða leikar spennandi.

Engin ummæli: