miðvikudagur, 14. nóvember 2012

Frekari útskýringar

Það sem hvað mest hefur vafist fyrir mér í sambandi við áskorunina var stigagjöfin. En í samtali við Ástu núna áðan kom nafnið; Spikprik. Ég er semsagt að safna spikprikum. Og um leið og maður er komin með smá rím  og vott af stuðlum nú þá er ekkert eftir en að vera í stuði.

Þess ber að geta að vilji einhver annar fara að safna spikprikum nú þá er hið besta mál að gera svo. Mér dettur helst í hug að hver þáttakandi sníði reglurnar eftir sínum stakki. Þannig er hveiti og brauð kannski í fínu lagi hjá sumu fólki en það þyrfti að taka eitthvað annað út. Segjum tildæmis 5 spikprika frádráttur fyrir of mikið rauðvín. Eða mjólkurvörur. Eða snakk eða McJónas.

Fyrir mér er þetta sérlega skemmtileg leið til að koma heilsusamlegri vana aftur í réttan farveg. Maður er með svona áþreifanlegt og visjúalt daglegt verkefni og margþætt verðlaun að áskorun lokinni. Þannig má gera ráð fyrir spikbræðslu, léttara skapi, hraustlegra útliti og því að eftir fjórar stanslausar vikur í góðum vana að sá góði vani haldist við lengur. Það eru auðvitað aðalverðlaunin.

Tilhugsunin um að spreða 300 pundum í vitleysu er reyndar voða ljúf líka.


Engin ummæli: