Hér er bjart og fallegt úti, nokkuð kalt en sólríkt. Ljómandi fallegur sunnudagur. Ég hafði í hyggju að fara út í göngutúr en vaknaði með ónot í maganum og ákvað að styrktaræfingar heimavið væru meira við hæfi. Fimm spikprik því komin í pottinn þar sem ég sest niður við morgunverð og kaffibolla.
Ekki get ég kvartað yfir árangrinum fyrstu vikuna í áskoruninni minni. 1.9 kíló farin og ég hef lítið þurft að ströggla í vikunni. Hef einhvernvegin komið þeirri hugsun að hjá mér að mér þyki það mikilvægara að reyna að léttast og losa um þetta gamla spik en að fá ristað brauð.
Ég er líka nokkuð viss um að ég hafi náð að halda þessu öllu á léttu nótunum hjá mér. Ég hef engan áhuga á öfgum eða á því að fá skitu yfir því að fá mér einn heitan kakóbolla með strákunum mínum eða hvíta kartöflu með fiski eða yfir því að það sé kannski sykur í Worcestershiresósudropanum sem ég set út í cottage pie. Ég er ekki að fylgja neinum lífsreglum hellisbúa eða lágkolvetnaflokks. Ég les mikið um hellisbúafæði og á meðan að ég er mjög hrifin af mörgum kenningum sem þar lifa, og þá sérstaklega hvað hreyfingu varðar, þá finnst mér alveg ómögulegt þegar fólk verður alveg fanatískt í skoðunum sínum á því hvað sé "rétt" og "rangt" hvað mat varðar. Mér þykir algerlega út í hött að persónugera mat og áætla honum gæði eða illsku. Ef maður er 168 cm og uþb 60-70 kíló og getur hlaupið 5 km án þess að drepast, haldið á þremur fullum innkaupapokum upp nokkrar hæðir í blokk og leikið úti á róló með krökkunum í klukkutíma, nú þá sé ég bara ekkert að því að fá sér croissant í morgunmat á laugardegi og snakkpoka í bíó öðruhvoru og pizzusneið þegar pizza er í boði. Matur er hvorki góður né slæmur. Hann er bara. Franskbrauð hefur engar illar fyrirætlanir í huga til að fá mig til að borða það til að skemma fitutap hjá mér. Ég hinsvegar er þannig gerð að franskbrauð einfaldlega hentar mér illa. Fyrir utan að vinna illa úr því þá vekur það upp í mér fíkilshegðun. Það tekur ofurmannlegt átak fyrir mig að fá mér bara eina sneið. Og þessvegna er betra fyrir mig að reyna að sleppa því að mestu leyti. En franskbrauð er hvorki gott né illt.
Áskorunin er ekki til þess gerð að "hætta að borða hvítt hveiti og sykur að eilífu, amen" heldur er hún frekar til þess gerð að minna mig með áþreifanlegum hætti hvað gerist þegar ég er "mindful" yfir því sem ég set upp í mig og því sem gerist þegar ég hnykla vöðvana og hreyfi mig af ákveðni yfir daginn.
Spikprik eða ekki, þetta er bara svo miklu betra svona.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli