- Pre-contemplation (for-íhugun) Hér er breytingin hugmynd sem er ekki alvarlega íhuguð.
- Contemplation (Íhugun) Hér er hugmyndin um breytingar íhuguð og skilningur kemur á nauðsyn þess að breyta hegðun en engin skref eru tekin til að gera eitthvað.
- Determination (Ákveðni) Hér ákveðum við að gera eitthvað og kaupum hlaupaskó, eða mánaðarkort í ræktina, kaupum undanrennu í staðin fyrir mjólk og segjumst aldrei framar ætla að borða brauð.
- Action (Virkni) Hér gerum við svo það sem við ætluðum; við förum út að hlaupa og mætum í ræktina, notum undanrennu út á múslíið og snertum ekki á brauði.
- Maintenance. (Viðhald) Hér er svo virkninni haldið svo vikum eða mánuðum skiptir. En flestir virðast ekki getað haldið þessu stigi út og færast aftur tilbaka á stig númer 1 eða 2.
Þetta eru stig sem ég þekki vel og virðist einmitt ganga í gegnum í reglulegum hring. Það sem ég virðist ekki ætla að læra á þessu hringsóli mínu er að það er eðlilegt að fara frá 5 og til 2 aftur og aftur. Ég verð alltaf jafn pirruð og fúl út í aumingjann mig þegar ég hætti viðhaldi. Það að mistakast er hinsvegar hluti af ferlinu. Það er allt í lagi að mistakast. Það sem ég þarf að skilja er afhverju ég færist frá 5 að 2 og 3. Ég skil ekki ennþá hvað ég geri sem fær mig til að byrja að leiðast og langa til að gera eitthvað nýtt.
Ég las alveg rosalega áhugaverða grein um daginn sem útskýrir þetta að hluta til. Þannig er það nóg fyrir mig að ákveða að hreyfa mig, eða borða hollan mat til að láta mér líða betur. Mér finnst ég vera við stjórnvölinn, ég hef stjórn á hegðun minni og það eitt að ákveða mig lætur mér líða eins og ég geti náð markmiðum mínum. Það sem svo gerist er að þegar fyrsti ástarbríminn líður hjá þá kemur í ljós hversu mikil vinna felst í að viðhalda breytingunni. Maður setur sér markmið þegar maður er langt niðri. Á sunnudagskveldi þegar maður er búin að liggja í sófanum allan daginn, raða í sig ristuðu brauð, lambalæri og köku er auðvelt að setjast upp og segja hingað og ekki lengra! Á morgun fer ég í megrun! Og það eitt að ákveða það lætur manni líða betur. Ég er manneskja sem setur sér markmið! Ég er ekki glötuð. En svo gerist það óhjákvæmilega; það eitt að setja markmið er besti hluti ferilsins, vinnan sem felst í að ná markmiðinu er erfið og löng og færir ekki þá tilfinningalegu vellíðan sem maður gerði ráð fyrir.
Þannig að ég verð að spyrja sjálfa mig hvort ég sé að reyna að forðast tilfinningalegt niðurrif frá sjálfri mér með því að setja mér tímabundin markmið eða hvort ég sé í alvörunni að reyna að ná markmiðinu? Akkúrat núna er ég nokkuð viss um að ég sé föst í að fá kikkið og vímuna sem markmiðasetningunni fylgir fremur en að ég sé í alvörunni að reyna að verða heilbrigð. Ég veit fátt betra en mánudag, mánaðarmót, nýja dagbók eða nýtt excel skjal. Allt eitthvað sem markar nýtt upphaf, nýtt markmið. En endalausa vinnan, streðið sem kemur svo á eftir? Ekki jafn hrifin.
Þetta er gífurleg uppgötvun fyrir mig. Ég er háð ákvarðanatökunni en get ekki haldið út viðhaldinu. Ég ber mér á brjósti og lýsi yfir hinu og þessu og líður vel í smástund en þegar allt fer svo í klessu líður mér aftur illa og allt þetta byrjar upp á nýtt. Ég þarf að finna það sem fær mig í alvörunni til að vilja breyta hegðun minni og þá get ég hætt að kvelja sjálfa mig með þessum tilfinningarússibana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli