sunnudagur, 4. nóvember 2012

Fallegi strákurinn minn.
Ég er óttaleg kjélling þegar að tölvuleikjum kemur. Ég er mikið búin að reyna að vera kúl mamma sem getur spilað með en ég í alvörunni verð eins og hreyfihömluð þegar ég fæ stjórntækið í hendurnar. Ég get engan veginn ýtt á tvo takka í einu, ég ber engan skilning á samhenginu á milli þess sem ég geri og því sem gerist á skjánum, ég hef enga þolinmæði til að plana mitt næsta skref en er á sama tíma sein og hægfara. Dave er miklu betur til alls þessa falinn og hefur tekið yfir þetta hlutverk. Ég fæ enn að byggja Legó með Lúkasi en þar sem að tölvuleikir eru að mestu hluta það sem hann gerir í frítíma sínum er ég oftast í því hlutverki að fylgjast með og spyrja aulalegra spurninga.

Ammæliskaka
Það lá því við að ég myndi elda handa honum uppáhaldsmatinn hans til að halda upp á afmælið. Dave gæti leikið með honum á Minecraft, ég myndi færa þeim allskonar skemmtilega rétti. En svo kom babb í bátinn. Það kemur í ljós að Lúkas á engan uppáhaldsmat. Fyrir honum er matur bara matur, eitthvað sem maður fær þegar maður er svangur og borðar þar til maður er saddur. Hann er matvandur, en hann er jafnhendis matvandur á ruslfæði og heilsufæði. Þar gerir hann ekki upp á milli. Ég stóð sjálfa mig þannig að því í gær að búa til mat sem ég lýsti yfir að væri uppáhaldið hans en sannleikurinn var að mig langaði bara í þetta sjálf. Byrjaði á amerískum pönnukökum með hlynsýrópi í brunch. Bakaði svo og skreytti súkkulaðiafmælisköku. Svo var það gomma af góðgæti frá "Chippie" í kvöldmat. Lúkasi gæti ekki verið meira sama. Hann setur ekkert samasem merki á milli matarins og þess að við séum að halda upp á afmælið hans. Þetta var allt gert fyrir mig. Ég vona bara að hann haldi þessu sambandsleysi á milli matar og fagnaðar því ég dauðöfunda hann af þessum hæfileika. Kannski ef ég þyrfti að stjórna átinu með X-box stjórnpinna þá væri þetta í lagi hjá mér?


Engin ummæli: