laugardagur, 3. nóvember 2012

Með tækið góða.
Lúkas Þorlákur verður 9 ára á þriðjudaginn komandi. Hann verður í skólanum þann daginn og við foreldrar hans í vinnu. Við ákváðum þessvegna að við myndum flýta fögnuði og halda upp á afmælið í dag. Við vorum búin að fá það hjá honum að hann væri til í að sleppa veislu og fá í staðinn stærri gjöf sem ég verð að viðurkenna að mér þóttu góðar fréttir, ég er búin að vera með hland fyrir hjartanum síðustu þrjú árin yfir þessum partýum. Við veltum fyrir okkur lengi hvað stór gjöf væri og komumst svo niður á að kaupa handa honum X-Box 360 og gefa honum tölvuleik sem hann er búin að langa í lengi. Við vorum ægilega spennt að mausa við að halda þessu leyndu og að byggja upp spenning og eftirvænting. Við ákváðum líka að setja allt draslið upp og tilbúið í gærkveldi svo hann gæti bara komið niður og byrjað að spila.

Við eyddum því gærkveldinu í að koma öllu í gang. Og þar sem Dave sat við að tengja saman kapla datt mér í hug hvað allt hefur breyst á því sem mér finnst vera skammur tími. Við getum núna horft á sjónvarpið og DVD diska í gegnum X-boxið og talað við vini í leiðinni sem líka eru að spila leik á sínu x-boxi. Við getum stoppað sjónvarpið í miðjum þætti og farið á klósettið. Við getum ýtt á takka og tekið upp heila seríu af sjónvarpsefni ásamt því að spóla fram og tilbaka. Við erum með 600 sjónvarpstöðvar. (Og ekkert sem er þess virði að horfa á.) Við getum horft á sjónvarp í gegnum tölvu og talað við fólk í gegnum skype og séð það í leiðinni. 1996 eyddi ég ári í háskóla í Antwerpen í Belgíu. Ég hafði þá aldrei notað internetið. Ég var ekki með gemsa og hringdi heim úr peningasímum. Hringdi í skiptiborð þar sem ég var stundum heppin og hitti á Ástu eða Hörpu og gat spjallað við þær áður en þær tengdu mig kollekt við mömmu. Nokkrum árum þar á undan var kerfið heima hjá mér þannig að við áttum vídeótæki og mamma setti númer á spólurnar. Svo var þar stílabók með númeruðum síðum og maður átti að skrifa á tilheyrandi síðu hvað maður hafði tekið upp á spóluna. Svo átti maður að strika yfir og skrifa nýtt efni ef maður tók yfir eitthvað. Fyrir utan mömmu þá vorum við hin á heimilinu léleg við útstrokin og það endaði alltaf á að maður þurfti að horfa á allar spólurnar til að finna það sem leitað var að. Við fengum fyrst vídeó tæki 1979 eða 1980 og ég man eftir stílabókinni upp undir 1990 þannig að þetta er ekki langt síðan. Ég hristi höfuðið yfir því hvað mér finnst þetta allt vera breytt. 9 ára og Lúkas er vanur heimi sem er svo ólíkur þeim sem ég ólst upp í. "Ótrúlegt alveg hreint" sagði ég um leið og Dave lagði lokahönd á uppsetninguna. "Nei," sagði Dave um leið og hann stóð upp. "það eina sem er ótrúlegt er að við séum saman. Ef ég hefði vitað að þú værir manneskja sem notaði ekki fullkomna kerfið hennar mömmu þinnar, sem er sama kerfið og ég notaði á mínar spólur, þá hefði ég aldrei gifst þér!"

Engin ummæli: