fimmtudagur, 13. desember 2012

Frostleginn bakgarðurinn í dag. 
Ég er í fríi í dag og eftir að hafa hreinsað til inni hjá Láka, farið með gömul leikföng í Charity Shop (hvað heita svoleiðis búðir á íslensku?) og stundað nett heimilistörf ákvað ég að það væri við hæfi að hella upp á einn léttan latte og setjast niður með Hávamál. Ég hef alltaf átt í smá heimspekilegu klandri með jólin. Ég er trúleysingi en elska engu að síður allt sem viðkemur hátíðinni. Og að undanförnu hafa trúarbrögð farið meira og meira í pirrurnar á mér, eða öllu heldur hvað fólk gerir marga slæma hluti í nafni trúarbragða. En fattaði svo loksins um daginn að svarið blasti við mér allan tímann. Jólin eru miklu eldri en kristni og það er ekkert sem segir að ég geti ekki fagnað vetrarsólstöðum með því að gefa gjafir, et, drekk og ver glaðr.

Út frá þessari yfirlýsingu minni að ég sé bölvaður heiðingi fór ég að rannsaka meira þessa víkinga arfleifð mína og komst að því að það væri mikið góður heimur að búa í ef við myndum öll lifa eftir tillögum þeim sem finnast í Hávamálum. Þar má finna leiðbeiningar um hvernig sönn og góð manneskja hagar lífi sínu. Hvernig maður á að koma fram við vini, hvernig maður á að haga sér hvað peninga varðar, orðstír og framgöngu alla.

Og nýji lífstíllinn er þar engin undantekning. Í erindi númer 21 segir:

Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann ævagi
síns um mál maga.

Þeas beljur úti í haga hafa vit á að ganga heim þegar þær hafa fengið nægju sína en heimskinginn kann ekki sitt magamál. 1000 ára gamall vísdómur og við étum okkur enn til óbóta! Ótrúlegt alveg hreint. Ég ætla að reyna að hafa þetta að leiðarljósi héðan í frá og læra mitt magamál. Ég er jú, víkingur er það ekki?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við förum víst með svona lagað í Góða hirðinn ;)

Kv Hólmfríður