laugardagur, 9. mars 2013

Ég skal viðurkenna að ég hélt aðeins niðri í mér andanum í morgun þegar ég steig á vigtina. Ég veit reyndar ekki alveg afhverju ég var að vigta mig, það er ekki partur af prógramminu. Það hefur eitthvað með excel skjalið mitt að gera. Ég á samviskusamlega skráða vikulega þyngd síðan 2009 og skjalið er orðið eitthvað  meira en bara vitnisburður um það sem ég borða. Ég hélt niðri í mér andanum því það er núna liðinn smá tími síðan ég gerði síðustu uppreisnina og sór að hætta þessu öllu saman. Auðvitað er risastór hluti af mér sem liggur flöt af skelfingu og áhyggjum yfir því hvað áráttuætan myndi gera þegar hún fengi frelsi. Ég hélt að ef mér væri gefinn laus taumurinn myndi ég ekki hætta að éta.

Á hverjum gefnum tíma er sagt að 80 milljón manns séu í megrun eða með einhverjar áætlanir um að breyta lögun sinni. Og billjón króna megrunariðnaðurinn elskar okkur öll og pumpar okkur full af nýjustu kúrunum um leið og þeir hlæjandi taka við peningunum okkar. Að undanförnu hefur það verið lífstíll og hægar breytingar og allt það en að lokum er tilgangurinn alltaf hinn sami; að breyta því sem þú ert núna. Og skilaboðin er þau hin sömu, að við séum óásættanleg eins og við erum.

Og þannig tæklar maður ástandið. Ég segi sjálfri mér að ég sé feit. Og að það sé vegna þess að ég sé veikgeðja, að ég sé ekki jafn dugleg og allt mjóa fólkið. Að það sé eitthvað að mér og að ég verði að breyta því. Og ég fer í megrun og um stund líður mér vel. Ég hef stjórn á sjálfri mér, ég borða minna. Mér er hrósað fyrir sjálfsstjórnina sem ég sýni, mér er hrósað fyrir að hafa vald yfir sjálfri mér. En svo liður tími og það verður erfiðara og erfiðara að fylgja reglunum. Ég hef einhvern tímann sagt að megrunarkúrar virki, það sé fólk sem virkar ekki. En það er líka hægt að horfa á þetta með meiri samúð og kærleika í garð okkar mannfólksins og segja að megrunarkúrar hafi innbyggt bilunarkerfi og að óhjákvæmilega komi fólk til með að gera uppreisn. Að við erum komin svo langt frá náttúrulegu hungur - næra merkjunum eftir áratuga megrunarkúra-ofáts hringsólið að það er ekkert skrýtið að við gerum uppreisn.

Ég er feit. En það er líka ekkert að mér. Ég er ekki veikgeðja eða eitthvað minna dugleg en annað fólk. Ég hef einfaldlega kosið að nota mat sem hækju í gegnum lífið. Og það er fullkomlega skiljanlegt val. Sem ungabarn er manni gefið að borða ef maður grætur og það er auðvelt að sjá samasemmerkið á milli matar og vellíðan. Það er ekkert rangt við að kjósa mat sem hækju. Og ég er ekki slæm manneskja þegar ég kýs að gera það.

Að segja sjálfum sér að maður sé vondur, slæmur, veiklundaður eru vondar tilfinningar og hvað geri ég þegar mér líður illa? Jú, ég fæ mér að borða. Hér liggur sumsé hundurinn grafinn. Ég borða, ég er feit, ég æpi á sjálfa mig fyrir veikleikann, mér líður illa, ég fæ mér að borða. Sjálfsásakanir og harka hafa aldrei leitt til breytinga. Forvitni og gæska leiða til breytinga.

Þegar mér datt í hug 2 kiló planið fannst mér ég vera ægilega sniðug. Og ég lagði enn einu sinni í að reyna að berja sjálfa mig til að breyta lögun minni. En inni mér saup ég hveljur. Ekki einu sinni enn. Ég bara get þetta ekki einu sinni enn. Ekki í eina mínútu. Ég get ekki haldið áfram að hatast við hver ég er, hvernig ég er, hvað ég geri. Ekki meira. Ég bara get það ekki. Og ég gerði uppreisn.

Og ég setti stjórnina aftur í mínar hendur. Ég er síðan þá búin að segja sjálfri mér daglega að ég sé bara ágæt. Ég spyr sjálfa mig hvort ég sé svöng. Ef ég er svöng þá fæ ég mér það sem mig langar í. Stundum er það salat. Stundum er það snickers.

En það er ekki þar með sagt að mig langi til að verða 130 kíló aftur. Mér fannst afskaplega óþægilegt að vera svo feit. Enda er ég alls ekki að mæla með því. En ég er hinsvegar að mæla með því að við slökum öll aðeins á. Að við hættum að segja sjálfum okkur að ef bara (setjið inn að eigin vali) gerist þá verði lífið betra. Að við séum ómöguleg eins og við erum núna. Það er eiginlega bara alveg merkilegt að hugsa til þess að vel gefið fólk allstaðar í heiminum skuli segja að jú það sé erfitt að halda sig við kúrinn, að maður falli af vagninum aftur og aftur. En undantekningalaust segir það svo með vonarglampa í augunum að "einn daginn mun mér takast að halda mér við efnið!"

Af hvaða ástæðum sem það var svo, það er erfitt að breyta vana, þá stóð ég á vigtinni í morgun. Og ég hef lést um hálft kíló. Ég er semsagt ekki brjálæðingur sem er ekki treystandi í nálægð við ísskáp. Ég er fær um að sjá um sjálfa mig.


1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Ég er nokkuð viss um að þú sért búin að gera það margar breytingar á þínum lífsstíl að þú verðir aldrei aftur 130 kg. Rokkir upp og niður um 5 kg - auðvitað, en að fara upp um þessi 40+ kg aftur, stórefast um það.

Þú ert búin að kenna sjálfri þér vel og þarft ekki að hafa eins mikið fyrir því að standa í stað og áður.

Mér finnst yndislegt hvað þú ert orðin sátt við sjálfa þig og ég vona að það verði engin breyting þar á.

Ég á enn eftir að finna þetta jafnvægi en ég er viss um að það komi að lokum.

yndisleg lesning svona í morgunsárið