föstudagur, 1. mars 2013

Fiets bergopwarts.
Það er nú svo komið að veðrið er orðið skaplegt hér í Wales. Enda tími til kominn, í dag höldum við upp á dag heilags David sem er dagur okkar Veilsverja og því gott að miða við vorkomu svona um þetta leyti. Og í skaplegu veðri er gott að hjóla. (Það er reyndar rosa gaman að hjóla í rigningu líka en það er önnur saga) Og gaman er það líka. Ég er núna orðin nokkuð viss um mig á hjólinu og er búin að hjóla í vinnuna þessa vikuna. Ég er enn að venjast því hvað mér finnst skemmtilegt að hjóla, og kúl líka. Ég er svona smávegis eins og ég var með vöðvahnyklingu, ég á það til að skransa og gera trix. "Awkward" eins og sonur minn myndi segja.

Það eru fimm inngönguleiðir inn í Rhos, þorpið mitt. Og allar þessar fimm inngönguleiðir eru upp á við. Mismunandi mikið upp á við en upp á við engu að síður. Ég er búin að vera að æfa mig síðan rétt eftir jól að hjóla upp á við svo ég komist heim aftur. Það er nefnilega ekkert mál að þruma að heiman, ég rýk um á þyngdaraflinu einu saman, allt niðrávið svo það hreinlega hvín í mér. En að komast heim hefur verið þrautinni þyngri. Ég byrjaði á bakleiðinni. Þar er bara ein stutt en snögg brekka og svo ein aðeins lengri en meira aflíðandi. Og ég var komin með hana alveg á hreint. Og svo tæklaði ég þá næstu. Þrjár snöggar brekkur, en mjög snarpar og það var ekki fyrr en ég lærði aðeins betur á gírana að mér tókst að komast alla leið heim án þess að stíga af. Og þegar maður hefur sigrast á einni brekku byrja þær allar að falla, ein af annarri. Um helgina fór ég upp þá þriðju og í kvöld þrusaði ég upp Stryt Las. Þá stendur bara Gutter Hill eftir ósigruð. Síðasta brekkan. Sú verður tekin um helgina. Tekin og jöfnuð við jörðu.

Engin ummæli: