Gutter Hill stendur enn alveg jafn tignarleg og mikilfengleg og hún var áður. Hún rís frá jafnsléttu í Johnstown og svo í góðum, jöfnum halla í rúma 1.2 kílómetra með ekki einum einasta slétta parti alla leið til Rhos. Og verður meira og meira aflíðandi eftir því sem lengra er komið. Ég fór út rétt eftir átta í morgun og tók langan hring þannig að mér til varnar var ég búin að fara rúma 20 kílómetra þegar að brekkunni kom. Og ég gafst upp rétt um hálfa leið. Djöfullinn sjálfur. En, engu að síður, gott að hafa svona andstæðing til að halda sér við efnið. Ég mun sigra!
Mér líður afskaplega vel núna. Það er alveg merkilegt hvað andleg vellíðan smitar út frá sér í hugmyndir manns um hvernig maður lítur út og hvernig aðrir sjá mann. Þegar mér líður vel finnst mér ég líta vel út. Þegar ég fór að spá í það þá var alveg útilokað að ganga um líðandi eins og ég væri að drukkna í spiki þegar mér hafði ekki liðið þannig þegar ég var 10 kílóum þyngri. Ég stoppaði þessvegna og átti örlítið samtal við sjálfa mig um það sem er mikilvægt í lífinu og það sem er aukaatriði. Að vera mjór er aukaatriði. Annars væru allir sem eru mjóir hamingjusamir. Og því miður þá er nú víst ekki svo.
Ég er núna á fullu að reyna að finna út hvað virkar fyrir mig. Reyna að finna þegar ég er svöng og skilja muninn á þvi að vera södd og að fá nóg. Ég á það voða mikið til að hella mér út í að troða í mig í hugsunarleysi af því að ég má núna borða allt sem mér dettur í hug. En ég er líka á sama tíma að minna mig á að það að borða hvað sem er er ekki endilega það besta fyrir mig. Ég hef að leiðarljósi að mér eigi að líða betur þegar ég er búin að borða en þegar ég byrjaði. Það er eiginlega ótrúlegt hvað ég stend sjálfa mig oft að því að líða verr eftir að ég borða. Þetta er afskaplega einföld hugmynd en áhrifarík.
Það er enn voðalega skrýtið að lifa án reglanna. Ég er búin að lifa eftir þeim svo árum skiptir og ég er hrædd og týnd án þeirra. En ég er líka algerlega með á hreinu að það er innbyggt bilunarkerfi í reglunum sem gerir það að verkum að að lokum virka þær ekki út af því að ég geri uppreisn gegn þeim. Þetta, að treysta á sjálfa mig, á eftir að vera betra fyrir mig að lokum.
2 ummæli:
Virkilega gaman að lesa skrifin þín. Ég er einmitt stödd á sama stað og þú, bæði hvað varðar bévítans brekku og reglur. Hef reynt að setja mér reglur í mörg ár en geri einmitt uppreisn, nú hef ég ákveðið að leyfa mér allt en í góðu hófi. Ef mig langar í nammi, þá fæ ég mér smá nammi í stað þess að bíða eftir einum sérstökum nammidegi og sprengja mig. Þá fer öll næsta vika í að vinna upp sprengjuna og svo frv.
Þú stendur þig ótrúlega vel og ert búin að vera algjör fyrirmynd, sérstaklega í hlaupinu. Haltu afram að vera þú og flott :)
Takk fyrir nafna - og baráttukveðjur með þína brekku :)
Skrifa ummæli