sunnudagur, 17. mars 2013

Þjóðsöngurinn sunginn.
 Það var spenna í loftinu um allt Wales í gær. Það var komið að lokaleik okkar í 6 Nations Rugby keppninni í ár. Og lokaleikurinn hafði allt til að bera sem lokaleikir þurfa að hafa. Andstæðingurinn var England, sem hingað til höfðu unnið alla sína leiki. Ef þeim tækist að vinna okkur þá myndu þeir ekki bara vinna alla keppnina heldur myndu þeir vinna hana með "Grand Slam" þ.e. vinna alla sína leiki. En ef við myndum vinna með átta stiga yfirburðum myndum við vinna alla keppnina. Og það sem mikilvægast var; stöðva sigurgöngu Englendinga. Við höfðum byrjað keppnina illa, hræðilegar fyrstu 20 mínúturnar á móti Írlandi þýddu að þrátt fyrir frábæran seinni hálfleik náðum við ekki að draga á þá og töpuðum 30-22. En síðan þá byrjuðum við að vinna, fyrst Frakkland, svo Skotland og Ítalíu. Og svo var komið að Englandi. Það er erfitt að útskýra hversu heitt Walesverjar þrá að skáka Englendingum. Í rugby er andrúmsloftið allt annað en í fótbolta, áhangendur andstæðra liða sitja saman og það er allt í góðu, en engu að síður, þá er bara eitthvað alveg sérstaklega mikilvægt að sýna gömlu kúgurunum hvert þeir geta stungið yfirburðum sínum. 


Garry og Tracy í velskum peysum
Við fórum til Wrexham til að vera með Tracy og Garry og horfa á leikinn á stórum skjá. Vorum komin á pöbbinn rétt um þrjúleytið. Dave skundaði reyndar á Wrexham v Luton og byrjaði daginn á að fylgjast með leiðinlegum 0-0 fótboltaleik sem dregur heldur úr vonum Wrexham um að komast upp úr deildinni átómatískt.  En á pöbbnum var ægileg spenna sem stigmagnaðist. Bæði menn og konur voru í rauðum velskum rugby peysum og velski fáninn með rauða drekanum blakti hvarvetna. Allir héldu þétt um glösin sín og vonin var áþreifanleg; hvað ef við getum unnið þá? Leikurinn fór fram í Cardiff, á heimavelli sem er óneitanlega betra því það gefur liðinu aukakraft að hafa meirihluta áhorfenda á sínu bandi. Walesverjar eru þekktir fyrir söng og það var óneitanleg gæsahúðin sem hríslaðist um mig þegar Hen Wlad y Nhadau, eða Land of my Fathers ómaði um allt. Liðið allt, áhorfendur í Cardiff og hver einasti maður á pöbbnum stóðu og sungu hástöfum með. Og svo byrjaði leikurinn. Ef handritahöfundur í Hollywood hefði skrifað söguna hefði henni verið hafnað sem ótrúlegri. Frá fyrstu mínútunni voru yfirburðir Wales gríðarlegir. Við gerðum allt rétt á meðan enska liðið gat ekkert gert nema fylgjast með hvernig á að spila rugby. Andrúmsloftið á pöbbnum var ólýsanlegt. Við hvert stig skorað hoppuðum við öllu upp og niður af hamingju. 
Þjóðhetjan Alex Cuthbertson skorar "try"

Og enskir geta ekkert gert en horft á þar sem Wales fagnar.


Þegar við náðum svo að skora "try" (þegar einn leikmaður hleypur með boltann alla leið yfir endalínu) ekki einu sinni heldur tvisvar, varð allt vitlaust. Gleðin yfir að vinna, gleðin yfir að hafa skemmt allt fyrir Englandi, gleðin og stoltið yfir því að vera best var ólýsanleg. Ég veit bara ekki hvort það er hægt að skilja þetta sem Íslendingur, við vonum jú að við vinnum Dani og Svía í handbolta, en þegar við dettum svo úr keppni byrjum við að halda með þeim. Það myndi aldrei gerast hér. "Swing low, sweet chariot" er lagið sem enskir rugby áhangendur syngja og í gærkveldi sungum við Walesverjar "You can stick your chariots up yer arse". 
Brjálað stuð - velski fáninn í bakgrunni. 

Blindfull og kát. 
Svo var tekið á því frameftir kvöldi. Við hlógum og drukkum og borðuðum gúrmet hamborgara. Fórum svo aftur til Johnstown þar sem mig grunar að eitt sambúca skot hafi verið það sem fór alveg með mig. Dave fór þessvegna með mig heim og gaf mér kínverskan takeaway sem lagaði mig alveg. 


Í dag er þjóðin svo að vakna upp, með dálitið rykugan haus, en hamingja enn allsráðandi. Við erum 6 Nations Champions, enn einu sinni. 

1 ummæli:

Ffion sagði...

I glad you enjoyed the game! Needless to say, I did too, despite being in Leeds amidst the enemy! ;)