fimmtudagur, 18. apríl 2013

Það eru bráðum komin 10 ár síðan að ég flutti hingað til Wales og það hefur margt gerst á þessum tíma. Mörg kíló komið, farið, komið aftur og farið enn einu sinni. Ég er búin að vera með heimþrá eiginlega allan tímann líka. Það er eitthvað alveg sérstakt við að vera Íslendingur, meira að segja þó að það séu bara við Íslendingar sem segjum að það sé alveg spes að vera Íslendingur. Heimþráin hefur reyndar alltaf skánað meira og meira með árunum. Frá því að vera nánast eins og líkamlegur sársauki niður í það sem hún er núna; svona smávegis eftirsjá. Fyrir utan hvað ég sakna mömmu og pabba stanslaust. Það breytist ekkert. Ég og Lúkas erum núna að fara í stutt frí til Íslands. Við erum að fara til Benidorm í sumar og vegabréfin okkar renna út bráðum og það þarf að redda því. Þetta er ágætis afsökun fyrir vikufríi heima.

Vanalega væri ég nánast lömuð af spenningi. Allt fólkið! Harðfiskurinn! NÓAKROPPIÐ! Skyrið!Mamma og  pabbi! En núna er ég líka með smávegis fyrirvara. Fyrirvara sem ég skammast mín ægilega fyrir. Síðast þegar ég var á Íslandi var ég 86 kíló. Ég hljóp 10 km án þess að finna fyrir því og lyfti þungum lóðum. Ég prédikaði hægri vinstri um staðfestu, sannfæringu og góða vana. Núna er ég 10 kílóum þyngri, með ónýtt hné og get ekki hlaupið og hef algerlega dottið út úr þeim góða vana að lyfta þungum lóðum.

Þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Ég er í gífurlegu ferli akkúrat núna, ferli sem ég þarf að ganga í gegnum til að komast heil frá þessu öllu saman. Ferlið fól í sér tímabil þar sem matur var aftur gerður löglegur og það óhjákvæmilega hafði í för með sér tilraunaát. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir að ég myndi þyngjast Og ég stend við þetta ferli mitt, ég er sannfærð um að ef ég fari í gegnum það allt komi ég út úr því sátt við það hver ég er. 100% hamingjusöm og það hvort sem ég er 100 kíló eða 60.

Og þessvegna finnst mér leiðinlegt að ég sé smá nojuð yfir því að fólkið heima sjái mig og hugsi með sér að ég sé hætt að hugsa um heilsuna. Í fyrsta lagi þá segir mín heimspeki það að það eigi ekki að skipta fólkið mitt máli hvort ég sé feit eða mjó, það eigi að pæla í því hvort ég sé kát eða leið. Í öðru lagi þá segir heimspekin mín það að það eigi ekki að skipta mig máli hvort fólk sé að hafa áhyggjur af því hvort ég sé feit eða mjó. En ég bara get ekki að því gert.

Ég er að reyna að hætta því en það skiptir mig enn máli hvort ég sé feit eða mjó.


sunnudagur, 7. apríl 2013

Ég keypti mér um daginn svona litlar ofnskálar eða "ramekins" til að búa til "einhleypa eplaköku". Þetta snýst allt um skammtastærðir ekki satt? Ég er búin að nota skálarnar stanslaust síðan ég fékk þær. Um síðustu helgi bjó ég til grænkáls og feta ídýfu. Gufusauð 200 g af kálinu þartil það var skærgrænt og hristi og kreisti svo af því allt vatn. Maukaði svo saman 100 g af feta, þrjár vænar matskeiðar af grískri jógúrt, matskeið af olífuolíu og einn maukaðan hvítlauksgeira, salt og pipar. Blandaði svo við kálið, setti í litlu skálarnar og bakaði inni í ofni í 25 mínútur. Borðaði heitt með hrökkbrauði og brokkóli og svo settí ég afganginn kaldan út á salat daginn eftir. Ég er líka búin að baka parmesan-egg og einn skammt af bökuðum kókós-og trönuberjahafragraut. En mig vantar enn epli.

Bakaður hafragrautur fyrir einn. 

mánudagur, 1. apríl 2013

Eftir nokkuð langt frí frá öllu, mat og mér og megrun, er eiginlega kominn tími til að finna pennann minn aftur. Hvar ætli hann sé?