föstudagur, 23. ágúst 2013

Ég held að flestir séu orðnir nógu sjóaðir í megrunarfræðunum til að vita að viljastyrkur er ekki verkfærið sem þarf til að takast ætlunarverkið. Viljastyrkur dvínar alltaf og að lokum er maður útmakaður í súkkulaði, alveg sama hvað maður var ákveðinn í að aldrei borða nammi framar.

Ástæðan fyrir því að það er útilokað að reiða sig á viljastyrk einan saman er að heilinn fúnkerar á þveröfugan hátt við það sem ætlunin er. Látum sem svo að maður ákveði að sigrast á spikinu. Og ákveður að hætta að borða nammi. Og maður endurtekur með sjálfum sér að maður skuli sigrast á namminu, maður verði bara að vera sterkur, sterkur, sterkur. En á sama tíma er heilinn á fullu að ímynda sér súkkulaði, hvernig það er á bragðið, lyktina, áferðina, unaðinn sem átinu fylgir... og ímyndunaraflið vinnur þannig gegn viljastyrknum. Svona eins og þegar maður segir: "EKKI hugsa um bleikan fíl!" Um hvað ertu að hugsa? Jú, bleikan fíl. Ímyndunaraflið er viljastyrknum yfirsterkara. 

Þetta hef ég reynt aftur og aftur. Ég var búin að gera mér grein fyrir að reiða sig á viljastyrk til að breyta einhverju er til lítils. Ég var búin að sjá að eitt besta verkfærið til breytinga var rútína. Það er að segja að bara koma góðum venjum fyrir inni í venjulegri, daglegri rútínu. Þannig að maður þyrfti lítið að grípa til viljastyrks, venjan tók bara yfir.

En það er heldur ekki nóg. 

Það sem ég er svo núna að gera mér grein fyrir er aðalatriðið sem þarf til. Maður þarf að vera fullur sannfæringar. Maður þarf að vera algerlega sannfærður um ágæti aðferðarfræðinnar sem maður notar. Svo sannfærður að breytingarnar, lífstíllinn verður nánast eins og trúarbragð. Og það skiptir engu máli þó maður breyti um trúarbrögð, maður verður alltaf að vera jafn sannfærður. 

Ég er búin að ráfa um í trúleysi núna um dimman dal alltof lengi. Nú er kominn tími á trúarofsa. 

1 ummæli:

Hanna sagði...

Ætli það virki þá að hugsa: "Nú ætla ég aldrei að hreyfa mig meira; aldrei hlaupa, dansa, synda eða hoppa. Skyldi maður þá fara í huganum að tengja við áður góðar upplifanir tengdar hreyfingunni og maður sé kominn í gallann áður en maður veit af?
Ég er allavegna komin beint í skápinn þegar ég er að forma hugsunina um að ég ætli ekki að fá mér Nóa Kroppið sem er upp í skáp.
Knús á þig sæta <3