fimmtudagur, 12. september 2013

Ég er svo mikil skutla í nýju stígvélunum að ég get ekki einu sinni hjólað í vinnuna. Þegar ég vaknaði í morgun urðu þau til þess að ég setti extra mikinn eyeliner og últra mikinn maskara og hengdi meira að segja á mig allkonar glingur. Og svo byrjaði að rigna og ég bara gat ekki hugsað mér að mæta útrignd og hrikaleg í vinnuna. Ekki þegar ég var í háum stígvélum með lökkuð augnhárin. Snaraði mér bara í strætó og sat þar með krosslagða fætur og dinglaði stígvélunum í hvert sinn sem nýr farþegi kom um borð. Bara fínt.

Ég fór svo í Zara og mátaði nokkra kjóla. Og hrökklaðist aftur út öfug. Lét það reyndar ekki taka frá mér hvað mér finnst ég vera mikil skutla en ef satt skal frá segja þá bognaði sjálfsálitið öööggulítið. Í fyrra, skv. bloggfærslu frá því í Október, var ég 95 kíló og komst í gallabuxur í númer 14. Núna, tveimur kílóum síðar og ég kem þeim ekki upp yfir lærin á mér. Bara tvö kíló. En gætu allt eins verið tvöhundruð. Þetta bendir skilmerkilega til þess hversu mikilvægt það er að hreyfa sig til að fá straumlínur á líkamann. Vigtin skiptir mun minna máli þegar maður er vöðvastæltur og hraustur. Og ætti að verða til þess að minna mig á að byrja að hreyfa mig almennilega aftur. Eða að minnsta kosti ekki láta hégómagirnd hindra þá litlu hreyfingu sem ég þó fæ.

Engin ummæli: