Í gær og í dag er mig búið að langa í.....eitthvað. Ég er líka á sama tíma með ægilegan "innri þrýsting" af því sem ég tel að sé ofneysla trefja. Trefjar eru lífsnauðsynlegar til að viðhalda eðlilegri meltingarstarfsemi í gangi, en ef maður gerir eins og ég, og borðar ofgnótt af þeim án þess að drekka vatn með, nú þá klessast þær bara hressilega í meltingarveginn og allt stoppar. Trefjar eru líka voða fínt orð. Mér dettur í hug að það gæti orðið eitt af þessum nýmóðins íslensku mannanöfnum, svona eins og Gnær eða Blámi. Trefjar Gnær Davíðsson gæti ég skírt ef ég eignast annað barn. Nei, nú er ég komin út fyrir efnið. Ég vona reyndar að ég komist yfir innri þrýstinginn því ég er með killer uppskrift að kryddbrauði i huga sem notar einungis flaxmjöl, sneisafullt af trefjum.
Allavega. Mig langaði sem sagt í eitthvað. Þegar ég segi eitthvað þá á ég að sjálfsögðu við nammi. Og kannski kex. Jafnvel köku. En nammi hefði dugað. Að vissu leyti var ég glöð, því ég var farin að hafa áhyggjur af þessu ægilega lystarleysi. Á hinn bóginn var ég hundfúl því lystarleysið hefur hentað vel. Þessi vika er reyndar búin að vera dálítið öðruvísi hvað mat varðar. Ég er búin að vera að gera tilraunir með kolvetnamagn og hef verið að fara upp undir 40 og 50 grömm á dag. Hnetur, flaxmeal (ég bara get ekki munað hvað það heitir á íslensku), grísk jógúrt, allt í lagi svona smávegis og öðruhvoru en greinilega ekki í því magni sem ég hef verið að borða það. Mér finnst einhvern vegin að það að snarla svona á hnetum og jógúrti hafi endurvakið matarlystina. Sem stendur er ég líka búin að þyngjast um kíló í vikunni, held reyndar enn fingrum krosslögðum fyrir velheppnaðri klósettferð sem allra fyrst, en engu að síður. Það er nokkuð ljóst að allt yfir 30 grömmum af kolvetnum yfir daginn stöðvar fitutap hjá mér.
Hvað um það. Einhvern veginn varð ég að fá mér eitthvað til að láta mig hætta að langa í eitthvað. Og þó mér hafi nú ekki tekist að búa til alveg kolvetnalaust nammi þá er þetta nú samt skárra en snickers.
Kókóssmákökur. Þessar eru eins og smjörkökur, ekki of sætar en með skemmtilegu kókósívafi. Macadamia hneturnar búa til þetta smjörbragð.Tvær eða svo með góðum kaffibolla og maður er búinn að fá "eitthvað". (Breytt og endurbætt frá( http://kateshealthycupboard.com )
1 bolli kasjúhnetur
1/2 bolli macadamia hnetur
1 bolli kókósmjöl (ég notaði bland af kókósmjöli og kókósflögum)
20 grömm pálmasykur (hér má að sjálfsögðu nota eitthvað af þessum sætuefnum, og minnka kolvetnamagnið, ég myndi mæla með 1/3 bolla)
1/2 tsk lyftiduft
fingurgrip af salti
1 tsk vanilla
1 mtsk bráðin kókósolia
2 mtsk feitur rjómi
Hnetur í matvinnsluvél og malaðar í duft, allt hitt sett út í og maukað þar til helst saman. 18 litlar kúlur settar á sílókon bökunarflet og flattar aðeins út. Bakað við 190 gráður í 8 mínútur. Látið kólna aðeins til að harðna og færið svo á grind til að kólna og storkna. 2.7 grömm kolvetni á hverja smáköku sem gæti verið betra, en gæti líka verið mikið, mikið verra. Ég er glasið er hálffullt kjélling.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli