laugardagur, 7. september 2013

Þrátt fyrir svona örlítil mishöpp með náttúrusykrur eins og steviu þá held ég ótrauð áfram með lágkolvetnalífstílinn og líður rosalega vel. Ég hef mestmegnis haldið mig við innan 20 grömm af kolvetnum á dag (ég tel reyndar ekki grænt grænmeti) og sé að með því að halda mig þar þá gersamlega lekur af mér spekið. Það er því komin tími til að hækka aðeins magnið til að sjá hvað ég kemst upp með.

En áður en lengra er haldið er ekki við hæfi að útskýra þetta aðeins meira? Kolvetni eru ástsælt umræðuefni og hafa sjálfsagt verið síðan Atkins kúrinn varð frægur hér um árið. Það virðist sem svo að einhver bóla sé í gangi núna og ég efast ekki um að með henni fylgi margskonar misskilningur og hundavísindi.

Kolvetni eru eitt af þremur meginnæringarefnunum sem byggja upp allan mat. Hin tvö eru svo prótein og fita. Kolvetni eru í mat eins og ávöxtum og grænmeti, brauð- og kornmeti, pasta, baunum og sælgæti. Líkaminn kýs kolvetni allra helst til að nýta sér sem orkugjafa. Kolvetni eru byggð upp af sykrum, eða sykurmólekúlum (molecules) sem binda saman kolefni, vetni og súrefni. (CHO). Líkaminn brýtur niður allar tegundir af kolvetnum og breytir í glúkósa og nýtir síðan sem orku.

Kolvetnunum sjálfum má svo skipta niður í ýmsar tegundir, einföld og flókin, hæg og fljót eða jafnvel góð og slæm! Einföld kolvetni eru fljótt niðurbrotin í líkamanum og fara hratt í blóðið og eru til dæmis ávextir, sykur og hvítt hveiti. Flókin kolvetni eru búin til úr fleiri mólekúlum (aðallega trefjum) og taka lengri tíma að brotna niður og eru þannig einnig talin "betri". Hér er tildæmis um að ræða grænmeti, baunir og hafra.

"Venjulegur" líkami getur yfir daginn brotið niður og nýtt sér til orku um það bil 300g af kolvetnum. Allt um fram það án þess að hreyfa sig últra mikið myndi valda því að líkaminn offramleiðir glúkósa sem hann hefur ekkert við að gera annað en að breyta í fitu.

Þeir sem aðhyllast lágkolvetnalífstílinn halda fram að með því að takmarka inntöku kolvetna hafi líkaminn ekki um neitt að velja en að nýta sér fitu og prótein sem orkugjafa og eftir nokkurn tíma fer líkaminn á stig sem kallast "ketosis" þar sem líkaminn nýtir sér fituforða líkamans til orku og breytir henni í orkuforða sem kallast ketones. Að vera "í ketosis" þýðir að líkaminn hefur brennt stórum hluta fituforða í andsvari við þá staðreynd að hann hafði engan glúkósa til að vinna úr.

Til að kanna hvort matvara sé há- eða lágkolvetna er best að lesa á innihaldslýsingu. Einhver misskilningur er í gangi með "total" og "net" kolvetni, en munirinn þar á er að í "total" kolvetnum eru trefjar (fibre) taldar með en í "net" er búið að mínusa þær frá. Öll lönd hafa mismunandi reglugerðir um hvað þarf að taka fram og ég myndi hvetja fólk til að lesa vel og vandlega á miðann. Þannig eru breskar matvörur alltaf með "net" kolvetni og trefjar hafa þegar verið dregnar frá. Amerískar hinsvegar telja oft upp total carb en eiga það til að segja bara til um skammtastærð frekar en "í 100g". Góð þumalputtaregla er að passa að í hverjum 100g séu ekki fleiri en 20g af kolvetnum (carbohydrates). Segjum sem svo að þú ætlir að fá þér gulrætur og húmmús. Í 100g af gulrótum eru tæp 8g af kolvetnum þegar trefjar hafa verið teknar frá og í 100g af húmmús eru um 16g. Þú fær þér 80 g a gulrótum og 50 g af húmmús og ert þar með búin að fá  14.4g af kolvetnum. Eða umþ helming af því sem ég leyfi mér yfir daginn. Þannig er auðveldast að telja saman yfir daginn. (Og persónulega myndi ég kalla húmmús spari!)

Þegar fyrst er á litið mætti ætla að lágkolvetnamatseðill virðist vera lausnin á fituvandamáli heimsins en það verður einnig að taka það fram að margar rannsóknir hafa sýnt að fólk gefst alveg jafnmikið upp á þessum megrunarkúr og hverjum öðrum. Fitutap er gífurlegt til að byrja með en minnkar svo og jafnast út á við aðra kúra sem takmarka hitaeiningar, eða fitu eða hvað annað.

Ég tel sjálf að lágkolvetnin henti mér vel vegna þess að geðveikin mín stjórnast af kolvetnum. Með því að sleppa þeim kemst ég hjá klikkuninni. En hver og einn verður að gera upp við sig hvað er best fyrir sig. Ég ætla svo allsekki að sitja hér og segja að eitt sé betra en annað.

Mér þykir auðvelt að halda mig innan við þessi 10-30g á dag. Í morgunmat fæ ég mér smjörsteikta ommilettu, oftast með mismunandi kryddblöndu. Hádegismaturinn er svo salat með kjöti og feitri dressingu. Eða lifrakæfa. Kvöldmatur er svo kjöt eða fiskur með grænmeti. Ég borða ost og kjöt í snakk og snarl. Og ég fæ mér frosin bláber með rjóma eða chia búðing í eftirrétt. Grísk jógúrt stundum. Ég hef mestmegnis sleppt hnetum og fræjum því það er svo auðvelt að óverdósa á þeim. Ég nenni ekki að telja kolvetni í grænmetinu sem ég borða, passa bara að velja lágkolvetnagrænmeti eins og blómkál, brokkólí og kál.

Þetta er ekkert mál.

Ég hef enn ekki nennt mikið að vera að stússast í bakstri. Ég sakna ekki að fá mér brauð og kökur. Ég get ekki hugsað mér svona "substitute" brauð úr möndlu, flax eða kókósmjöli, því það er bara ekki brauð. Vil frekar bara sleppa því. Ég var nú þegar orðin lúnkin við að baka kökur úr kókóshveiti, ég á góða grunnuppskrift sem ég nota stundum, en enn sem komið er hef ég ekki mikið gert af þvi. Ég held að það sé eitt af þvi sem fólk flaskar á, það byrjar að búa til öll þessi kruðerí úr "alternative" hveiti og endar svo bara með gommu af kolvetnum án þess að taka eftir því.

Það eina sem ég sakna er haframjöl. Ég ákvað því í morgun að búa mér til hnetugranóla sem er svona spari. Ég er ófær um að nota steviu og hef notað hér pálmasykur, en bara 25g þannig að heildar uppskriftin er um það bil 40 g af kolvetnum. Skipt niður í 10 skammta út á skyr eða jógúrt og bara 4 g af kolvetnum í skammtinum.

1 bolli kasjúhnetur
1 bolli möndlur
fingurgrip af góðu salti
hakkað aðeins þannig að það eru mismunandi klumpar af hnetum
3 mtsk smjör
25 g pálmasykur
1 tks góð vanilla
3 mtks sykurlaust bökunarkakó
allt brætt saman og hellt yfir hnetublönduna
40 g kókósmjöl svo blandað saman og allt flatt út á plötu og sett inn í 80g heitan ofn í 4 tíma.

Út á skyr í morgunmat eða millisnakk eða jafnvel eftirrétt og hamingjan syngur í lífinu.

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Jiminn eini hvað þú ert alltaf dugleg. Ég er svo hrikalega löt þegar það kemur að þessu blessaða mataræði að ég myndi ekki meika að pæla svona mikið í þessu, hvað þá að actually gera eitthvað í málunum.

Dáist endalaust mikið að dugnaðinum í þér.