sunnudagur, 26. janúar 2014

Maður byrjar með plan. Það bara verður að hafa plan.

Ég get ekki "aflært" það sem ég hef uppgötvað á síðustu árum en ég get endurupplifað og nýtt mér það sem ég hef lært.

Ég er búin að prófa allskonar og þegar ég lít til baka þá held ég að ég hafi verið ánægðust þegar ég borðaði alvöru mat með þónokkurri skammtastjórnun. Þannig að það er það sem ég ætla að byrja með núna. Ég elska hafragraut of mikið til að geta frelsast algerlega yfir í lágkolvetni. Ég verð líka að benda sanntrúuðum á að flestar rannsóknir sýna að lágkolvetnafæði er ekki áhrifaríkara til langtímafitutaps, langtíma er lykilorðið, en hvaða önnur megrunaraðferð. Spurning hér er alltaf hin sama; hvað get ég gert í sem lengstan tíma?

Svarið við því fylgir svo svarinu við öllu draslinu. Því lengur sem maður getur gert stórvirkar breytingar á lífsháttum því líklegri er maður til að viðhalda fitutapi. Sem stendur er metið hjá mér frá 2008 til 2012 og verður að teljast nokkuð gott skeið. Það var tímabil þar sem ég borðaði hafragraut, salat og kjöt/fisk ásamt því að gera tilraunir í eldhúsinu í bland við nokkuð markvissa hreyfingu.

Ég get sagt með sanni að blanda öllum stefnunum saman er ávísun á stórslys. Þannig er td ekki sniðugt að setja rjóma út á hafragrautinn í þeirri trú að hitaeiningavigtaður hafragrautur fari vel með lágkolvetna fituneyslu.

Ég er þessvegna búin að búa til vikumatseðil sem gengur út að gott hlutfall kolvetna, fitu og próteins ásamt því að kitla bragðlaukana. Ég get ekki ákkúrat núna dílað við stefnu sem bannar eitthvað og ætla þessvegna að láta vera í bili yfirlýsingar um ekkert brauð og engan sykur. Ef ég fylgi plani þá kemur það svona nokkuð náttúrulega hvort eð er.

Hreyfingin vefst enn örlítið fyrir mér. Ég hjóla náttúrulega í og úr vinnu og fæ þannig um það bil 50 mínútur af ágætis hreyfingu alla virka daga. Mig vantar að bæta inn lyftingum. Engin rækt þýðir líkamsþyngdaræfingar. Sem þýðir að vakna um fimmleytið á morgnana og að finna prógram. Ég setti "You are your own gym" appið í símann minn en er aðeins að vandræðast með að skilja uppsetninguna. Ég finn út úr því.

Hitt er svo að til að lækka stressfaktorinn í vinnunni hef ég tekið heilagt loforð af sjálfri mér að taka mér hádegishlé. Standa upp, fá mér salat og labba svo í hálftíma.

Ég rökræddi fram og tilbaka við sjálfa mig hvort ég ætti að vigta mig og allt það og komst að þeirri niðurstöðu að ég þurfi að sjá töluna á vigtinni til að halda mér við efnið. Í þetta sinni hef ég hinsvegar ekki sett mér lokamarkmið. Það er að sjálfsögðu það sem ég er hvað mest að berjast við, þessi sálræna barátta við hvað maður er mikill lúser og aumingi ef maður er feitur, en ég sver að það er algerlega það sem ég er að fókusa á númer eitt, tvö og þrjú.

5 ummæli:

Ása Björg sagði...

Sæl Svava,
Ég er ein af þeim sem hef fylgst með blogginu þínu án þess að svara. Það hefur verið mjög hvetjandi að fylgjast með þér í vegferð þinni. Ekki af því að þér hafi gengið svo frábærlega, þó þú hafir náð góðum árangri, heldur aðallega af því að þú ert tilbúin að viðurkenna mistök og þú gefst aldrei upp.

Ég hef verið nánast á sama stað og þú þegar þú varst sem þyngst, vantaði einungis örfá kg upp á það. Ég er einnig með skjaldkirtilssjúkdóm sem hefur gert mér of auðvelt að þyngjast og aðeins of erfitt að léttast. Nú er ég loksins, vonandi, komin á rétt lyf og réttan lyfjaskammt og vigtin hefur byrjað að síga aðeins niður á við.

Ég er ekki að segja þér hvað þú átt að gera, það eru nóg af slíku fólki til, en það sem hefur gagnast mér best eru 5:2 föstur og ég hef nú á 20 vikum misst 7,5 kg. Það hljómar ekki mikið fyrir flesta en eru þó 380 gr. á viku í 20 vikur. Ef ég næ að halda því þá ætti ég að ná af mér 20 kg á 52 vikum. Ef það gengur eftir þá ætti að taka mig um 3 ár að komast í kjörþyngd. Mér féllust dálítið hendur þegar ég gerð mér grein fyrir því, en svo hugsaði ég: tíminn líður hvort eð er! Afhverju ekki að halda mig við þetta sem virkar þótt það taki lengri tíma en ég vildi. Ég hef ekert annað fundið sem hefur virkað fyrir mig til lengri tíma.

En alla vega það sem mig langaði að segja er að mér finnst þú hafa staðið þig vel í að takast á við þetta verkefni og ég hef notið þess að fylgjast með þér.

Gangi þér sem allra best :)

Ása

Hanna sagði...

Elsku Baba - Þú ert alger hetja! Risaknus frá mér, H.

Nafnlaus sagði...

Varðandi hreyfingu þá langar mig að benda þér á Beachbody prógrömmin! Mæli með Turbofire og P90X. Það er hægt að panta í gegnum vefsíðuna þeirra eða stela þeim á torrent. Ég gerði hið síðarnefnda. ;)

Nafnlaus sagði...

Mér líst vel á þetta plan hjá þér - ég er búin að ganga í gegnum nákvæmlega það sama og þú - ná miklum árangri og svo breytast aðstæður og kílóin fóru að læðast aftan að manni... Nú er ég að reyna það sama og þú - borða alvöru mat og hreyfa mig með eins og skipulagið leyfir.

Ég er rosalega stolt af þér af því þú viðurkennir mistökin - gefst ekki upp og heldur áfram :) Fyrir utan hvað þú ert nú skemmtilegur penni !

murta sagði...

Takk fyrir þetta - þetta kemur með kalda vatninu!