Ég ruglaðist örlítið í ríminu á sunnudaginn. Ákvað að borða poka af karamellum sem var inni í skáp "svo hann yrði búinn áður en ég myndi borða hann." Svona eins og þegar ég eyði pening áður en hann klárast. Það eru svona móment sem ég verð að muna að staldra við og hugsa aðeins. Það er nefnilega trixið; að grípa sjálfan sig við vitleysuna áður en hún er gerð.
Að öðru leyti er allt á grjótmyljandi gangi hjá mér. Fyrstu dagarnir og vikurnar á heilsusamlegu líferni eru svona dálítið eins og þegar maður er fyrst skotin í einhverjum. Maður gengur um með fiðrildi í maganum og býr til loftkastala í huganum um glæsta framtíð. Þessir hveitibrauðsdagar eru svo skemmtilegir. Það skemmtilegir að það er nánast þess virði að klúðra málunum svona bara til að fá aftur þessa tilfinningu. Svona eins og make up sex. En svo byrjar rútínan og maður þarf stanslaust að vinna að því að viðhalda blossanum.
Ég fattaði hvernig prógrammið í símanum virkar og er þessvegna núna komin með þetta líka fína tíu vikna prógramm til að fylgja. Það er alltaf hreyfingin sem er vinna hjá mér, ekki hreyfingin sjálf þaes, heldur þetta að tussast af stað. Ég var hinsvegar sérlega kát að fatta að gamla matarprógrammið mitt er mér svo eðlislægt að ég tók varla eftir því á sunnudaginn þegar ég bjó til matseðil, verslaði í hann og smellti svo í eggjamúffur og salat tilbúið fyrir vikuna. Það virðist sem svo að það að fylgja því plani sé enn fullkomlega eðlilegt. Mér er kannski viðbjargandi enn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli