miðvikudagur, 29. janúar 2014

Vandræðagangurinn upphófst svo í dag. Ég hef að undanförnu farið á föstudögum á pöbbinn að fá mér snarl með vinkonu úr vinnunni. Hún er fitubolla sú, fitubolla af hjarta og sál og harðsnúin sem slík. Í dag kom föstudagshádegið eitthvað til tals á milli okkar og eftirrétturinn sem við höfum fengið okkur að undandörnu. (Belgísk vaffla með ís og karamellusósu) Eitthvað varð ég herpt á svipinn og hún tók eftir því. Og án þess að nokkuð væri sagt var lína dregin á milli okkar. Ég er núna óvinurinn. Leiðinlega manneskjan sem með því að taka góðar ákvarðanir rústa þeirri ánægju sem hún hefði fengið út úr því að borða vöffluna. Núna hefur hún bara um tvennt að velja; sleppa vöfflunni og þykjast vera "að passa sig" líka en vera með hjartslátt af panikki yfir þessu tapaða tækifæri til að borða (sem endar svo sjálfsagt á enn öflugra binge um kvöldið) eða snúa upp á sig og háma vöffluna í sig fyrir framan mig til að minna mig snarlega á að ég er núna óvinurinn, ég hef svikið minn þjóðflokk.

Svona samskiptaárekstrar eru alþekktir þegar fólk breytir um lífstíl. En ég get ekki leyft annarri feitri manneskju að ráða því hvort ég velji vel eða illa. Ég er meira að segja til í að sleppa því bara að vera vinkona hennar ef vináttan gengur bara út á að fóðra fíknir okkar og réttlæta þær svo fyrir hvorri annarri. Ég þarf svo sjálf að vinna í að láta þetta ekki fara svona í pirrunrnar á mér. Samfélagið allt gerir ráð fyrir því að heilsusamlegt val á mat sé tímabundið ástand. Það er nánast ekki skrýtið að manni mistakist stanslaust þegar þetta eru skilaboðin allt í kringum mann. Það er líka tekið sem gefið að maður sé að "fórna" einhverju eða að maður sé einhverskonar gikkur.Það er svo skrýtið hvað það virðist vera erfitt að fá hollan mat samþykktan sem normið. Hvað ætli að það sé langt í að fólk verði sent út að borða kex svona eins og það þarf núna að fara út til að reykja?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alveg sammála þér með þessa árekstra, á einmitt vinkonu þar sem allt gengur út á að borða og þegar ég er að passa mig verð ég eiginlega að sleppa að hitta hana það verða bara árekstrar (enda má manneskja sem er mjórri en hún ekki passa sig). og jájá margar fleiri svona sögur. Verðum bara að leita í félagsskap þeirra sem vilja heilbrigðan lífstíl

Nafnlaus sagði...

Merkilegt, heyrði af svipuðu um daginn en þá var það áfengi, ekki matur. Ég var nefnilega að tala við eina um daginn sem hætti að drekka fyrir 3 árum. Hana bara langaði ekki meira í áfengi. Var ekki með nein vandamál, fór ekki í meðferð, bara fannst hún ekki góð með víni og langaði ekki í meir.
Helsta vandamálið við þessa ákvörðun hennar er fólkið í kringum hana. Vinkonur sem skilja ekki af hverju hún getur ekki bara "fengið sér eitt rauðvínsglas" eða einn bjór. Af hverju þarf hún að vera svona leiðinleg??
Ég segi nú bara hvar er stuðningurinn??

Kv, Harpa frænka

murta sagði...

Já, þetta er alveg merkilegt að vilja að draga fólk með sér niður í svaðið!