Alla vikuna rolaðist ég áfram, vann, æfði og hjólaði. Þrátt fyrir hor og slen. Ég er ómissandi í vinnunni (æðislegt) og mér fannst það sérlega mikilvægt að æfa í þessari viku. Þetta er nefnilega þriðja vikan eftir að hafa, ekki byrjað aftur, heldur frekar svona endurnýjað heitin. Og eins og allir vita sem vita eitthvað um lífstíl vita að það þarf 21 dag til að búa til vana. Mér fannst þessvegna eins og þessi vika væri mikilvæg.
Í dag vaknaði ég hinsvegar og verð að viðurkenna að ég er búin á því. Ég notaði upp alla orku í vikunni og núna er ég bara búin. Ég byrjaði á að setja saman langa ræðu fyrir sjálfa mig til að afsaka hversvegna ég myndi ekki æfa í dag. En í miðri ræðu datt mér í hug að það er engin ástæða til ræðuhalda til að sleppa æfingu í dag. Ég er veik og þarf að hvíla líkamann. Púnktur. Það er nefnilega þannig að ef ég hef í hyggju að þetta sé lífið, þá er eðlilegt að sleppa æfingu öðruhvoru. Meira en eðlilegt, stundum er það bara nauðsynlegt. Það sem er ekki eðlilegt er að þjást af samviskubiti ef einni æfingu er sleppt.
Þetta er það sem ég ströggla hvað mest við. Ég set mér markmið smærri markmið sem í raun hindra stóra markmiðið að lifa í sátt og samlyndi við hollan mat, í réttu magni í bland við heilbrigða hreyfingu sem passar inn í venjulegt heimilis- og vinnulíf. Smærri markmiðin hinsvegar er eitthvað eins og að léttast um þrjátíu kíló og geta gert 5 upphífingar áður en ég verð fertug. Smærri markmiðin eru tímaskilyrt og gera það að verkum að ég hugsa "þegar þetta er búið" eða "þegar þessu er lokið þá get ég..." (borðað eins og svín.) Þessi hugsun er það sem skapar samviskubit þegar maður fær sér eina pizzusneið eða sleppir æfingu vegna kvefs. Og er alls ekki til skaplegt til langframa.
Ég ætla þessvegna að æfa mig í dag. Í að sleppa æfingu. Ég ætla að planta mér í sófann, með góða bók og tebolla og dorma á milli kafla. Og í lok dags verð ég fullþjálfuð í að taka mér pásu.
2 ummæli:
Ég vona að þú sért orðin hress - bestu batakveðjur héðan frá Nær(í)um ♥
Takk Hanna mín er orðin góð.
Skrifa ummæli