laugardagur, 8. febrúar 2014

Ég eyddi öllu gærkveldinu í að læra velska þjóðsönginn, Hen Wlad Fy Nhadau, eða Land Feðra Minna. Ekki það að Wales sé land feðra minna, en það er hinsvegar ættleidda landið mitt og ef það er eitthvað sem Veilsverjar gera vel þá er það að syngja. Og hitt sem þeir eru flinkir við er að syngja þjóðsönginn á rugbymóti. Þeir eru reyndar líka helvíti lúnknir við að spila rugbyið sjálft og í dag ætlum við að spila við Íra. Leikur númer tvö í árlegu "6 nations" mótinu. Við erum búin með Ítali, unnum þá nokkuð auðveldlega en núna taka við nokkuð erfiðari leikir. Við höfum unnið mótið síðustu tvö árin og ætlum að reyna það sem aldrei hefur verið gert áður og vinna í þriðja árið í röð. Ég ætla sem sagt að fara með velsku fjölskyldunni á pöbbinn í dag til að syngja þjóðsönginn. Og horfa á leikinn að sjálfsögðu en fyrir mig er aðaltatriðið þegar það er sungið. Lagið er fallegt, textinn lýsir landinu svo vel og það er partur því þar sem maður getur æpt hátt og svo hærra sem er voðalega gaman.

Hitt er svo að á pöbbnum drekk ég örugglega voðalega mikinn bjór og ákvað þessvegna að vigta míg í morgun. Smá svindl en allt í þágu góðs málstaðs. Ég léttist um tæp tvö kíló í vikunni. Ekkert svona sem ég er þannig séð að einblína á en engu að síður þá finnst mér mikilvægt að halda áfram að skrásetja hvað ég er að gera til að sannfæra mig um að ég sé að gera það sem er rétt fyrir mig.

Í áframhaldi af því að undirbúa það sem gæti kannski verið þynnkudagur á morgun ákvað ég að æfa af helmingi meiri krafti í morgun, tók svo skart á að ég er núna með marbletti á fingrum í kringum hringina mína. Ég hefði sjálfsagt átt að taka þá af. Skundaði svo inn í eldhús til að hanna nýja köku. Ég hef ekki gert þetta lengi og verð að segja enn og aftur að ég stend algerlega skilningslaus fyrir framan sjálfa mig þegar ég spyr mig afhverju ég hætti? Ef mér finnst svona gott að æfa og svona gaman að hanna hollustu í eldhúsinu hvað gerist eiginlega til að stöðva þetta? Milljón dollara spurningin ekki satt?

Hvað um það. Kakan er geðsjúklega góð. Ég þarf reyndar að prófa annaðhvort að lækka og baka lengur eða það sem er líklegra að sé betra ráð; vatnsbaka hana.


Hugmyndin byggir á hefðbundum breskum eftirrétt, Sticky Toffee Pudding, sem er döðlukaka með karamellusósu. Ég breytti þónokkuð og þó mér hafi ekki alveg tekist ætlunarverkið þá er kakan sérlega bragðgóð og eins og ég segi þá held ég að uppskriftin sé nánast fullkomin, það þarf bara að skoða bökunaraðferðina. Ég prófaði að nota "Total Sweet" sem er xylitol sykur. Mér finnst hann hvað líkastur venjulegum sykri. En ef ég segi rétt og satt frá þá er óþarfi að hafa hann með út af sætindunum sem koma frá döðlunum í bland við svo karamellusósuna sem maður setur á.


Eins og sést þá náði ég henni ekki heilli upp úr forminu. Og mér dettur helst í hug að næst setji ég hana í form, setji svo vatn í ofnskúffu, formið þar í og baki þannig kökuna í vatnsbaði. Ég held að það sé aðferðin sem er notuð við sticky toffee pud hvort eð er og ég veit ekki afhverju ég fattaði það ekki fyrir.

1 bolli (bolli er amerísk mælieining og ég nota 250 ml bolla) af haframjöli, malað í fínt hveiti
1/2 tsk xantham gum (það má kannski sleppa því, ég var bara að prófa)
1 mtsk lyftiduft
1 tsk kanill
1/2 tsk salt - allt blandað saman

1 bolli döðlur lagðar í bleyti í 3/4 bolla sjóðandi vatni og svo maukaðar í spað

2 stór egg
1/4 bolli xylitol sykur (eins og ég segi þá held ég að það megi bara sleppa þessu, í bland við döðlur og karamellu er kakan bara orðin heilmikið sæt)
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli kókósolía, fljótandi - Egg, sykur og vanilla þeytt saman þar til ljóst og létt og hella svo olíunni saman við á meðan þeytt er. Bæta svo döðlumauki þar út í og að lokum hafrablöndunni, bara svona rétt aðeins saman.

Baka í 160 í 45 mínútur, eða eins og ég held að sé betra, hylja með álpappír og setja í vatnsbað og baka þannig.

Karamellusósan er ekki mín uppskrift. Hún kemur frá Elena´s Pantry þó ég hafi aðeins breytt henni.
1/2 bolli kókósrjómi, (þykki hlutinn sem myndast þegar maður lætur dósina inn í ísskáp yfir nótt) 1/2 bolli kókóssykur (þetta er eins og púðursykur og ég fæ sent frá iherb), 2 mtsk kókóssýróp (eins og sýróp og aftur, fæ sent frá iherb) allt látið malla í potti og svo er matskeið af kókósolíu hrært út í. Látið kólna og svo má sulla þessu yfir hvað sem er.

Þó kakan sé nokkuð hollustuleg, þá verður að sjálfsögðu að hafa í huga að það er samt fullt af sykri í henni. Xylitol er skárra en hvítur sykur. Döðlur, eru þær skárri? Það fer eftir því hvaða trúarbrögð (megrunarkúr) þú aðhyllist. Þannig er lágkolvetnafólk alveg á móti þurrkuðum ávöxtum á meðan að Paleo rétttrúaðir finnast þetta allt í lagi. Hafrar eru svo fínasta fæða þeirra sem nota alla fæðuflokka í jöfnum hlutföllum eða telja hitaeiningar, en hellisbúar og kolvetnisleysingar myndu hrylla sig við. Sama með kókóssykur og nectar, þetta er allt sykur alveg sama hversu heilsusamlegt þetta lítur úr fyrir að vera með sína lífrænu stimpla. Það eina sem allir eru sammála um er kókósolían. Öll eigum við að rúlla okkur um í henni.

Hvað um það allt saman, ein svona sneið með kaffibolla er ljómandi góð, og tilgangnum mínum náð; ég er á fljúgandi ferð í eldhúsinu. Og við vitum öll að þar er baráttan við spikið háð, og unnin.


Engin ummæli: