sunnudagur, 13. apríl 2014

Það eru núna komnar þrjár vikur þar sem ég hef sniðgengið unnan sykur eins mikið og ég hef mögulega getað. Á þessum tíma hef ég ekki fengið neitt nammi eða kökur og hef reynt að sleppa augljósum, og ekki svo augljósum, matvörum, sem innihalda sykur. Ég skal viðurkenna að ég hef á þessum þremur vikum borðað um það bil 200 grömm af rúsínum, tvær matskeiðar af tómatsósu og nokkrar teskeiðar af St Dalfour rifsberjasultu. Að auki hef ég fengið mér fjóra Quest bar sem innihalda erythrithol.

Ég sakna þess ekkert að borða nammi. Mér er alveg sama um það. Ég hef hinsvegar tvisvar núna verið í stöðu þar sem mig langaði alveg hrikalega að fá mér bakkelsi. Var á kaffihúsi og það hefði verið við hæfi að fá mér eitthvað nett með kaffinu. Það sem kom út úr því sem var sérlega jákvætt var að ég fór heim og bakaði haframúffurnar mínar, breyttar og endurbættar svo eini sykurinn í þeim eru nokkrar apríkósur og rúsínur. Mér datt í hug að næst þegar ég fer á kaffihús, nú þá hef ég bara múffu með mér. Ekkert mál.

En maður verður sko að passa sig. Ég varð uppiskroppa með vanilludropa í morgun og skokkaði út í Co-Op að ná í nýja flösku. Ég er vön að nota hreina vanilludropa og þegar ég sá flösku sem innihélt Madagaskar vanillu hélt ég að ég væri nú aldeilis að fá eitthvað fínerí. Það var ekki fyrr en ég var búin að hella teskeið út í múffurnar þegar ég sá innihaldið.


Inverted sugar syrup og glucose syrup í fyrstu tveimur sætunum! Tvennskonar sykur á undan vanillunni. Hvaða rugl er þetta eiginlega?

Ekki að það sé mikið vandamál. Ég er ekki að gera sykurleysið af einhverjum öfgum, mér er alveg sama um smá sykur í tómatsósu eða í sojasósu. Ég vil einfaldlega forðast það sem gerir mig klikkaða. Ég sé ekki fyrir mér að sletta af sojasósu út á grjón verði til þess að ég fari út í búð og kaupi líter af ís og sex snickers og borði í einu. En samt, þetta minnti mig á hvað sykur er lævis og laumar sér hvert sem er.

Ég hef ekkert grennst á þessum vikum, enda var það heldur ekki tilgangurinn. Tilgangurinn var að komast upp úr þessari klikkun sem ég var búin að koma mér í með gífurlegum binge tímabilum.Mér líður líka miklu betur núna og er fír og flamme að tækla það sem á eftir kemur.

Engin ummæli: