Mikið sem þetta er góður sársauki þessi sem kemur eftir góða törn í ræktinni. Það er aðeins öðruvísi stemning þetta að fara eftir vinnu, mér finnst einhvernvegin eins og ég sé ekki að leggja jafn mikið á mig eins og þegar ég lyfti eldsnemma. Svona eins og það væri eitthvað meira kúl að vera mætt og búin áður en flest venjulegt fólk var komið á fætur. Samt er ég í raun að gera meira núna en hér áður fyrr af því að núna þarf ég líka að hjóla heim. Það var ekki með áður. Ég er enn algjör tappi.
Tappar taka líka þátt í Iron Man keppnum. Ég er nú kannski ekki alveg komin á það stig að geta synt 3.8 km, hjólað 183 km og hlaupið svo 42 km á tólf klukkutímum, en ég gæti nú kannski gert það ef ég fengi aðeins lengri tíma. Einn mánuð til dæmis. Hvernig væri að taka þátt í Iron May fremur en Iron Man?
Mér datt þetta í hug um daginn og er núna búin að setja þetta upp fyrir sjálfa mig. Maí er aðeins meira en fjórar vikur. Ef ég syndi einn kílómetra á hverjum laugardegi í maí, fer út að labba einn og hálfan kílómetra á næstum hverjum degi og hjóla tæpa sjö kílómetra þá eftir mánuðinn ætti ég vera búin að safna mér í einn járnkarl.
Það væri nú skemmtilegt. Að vera járnkarl.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli